Bradford á leiðinni til Njarðvíkur
Njarðvíkingar hefur gert munnlegt samkomulag við bandaríska leikmanninn Nick Bradford um að leika með liðinu út þetta tímabil í Iceland Express deildinni í körfubolta. Þetta kom fram á vefsíðunni karfan.is í morgun.
Nick Bradford hefur áður gert garðinn frægan hér á landi, nú síðast í vor þegar hann var nálægt því að landa Íslandsmeistaratitli með Grindvíkingum en hann vann titla með Keflavík fyrir nokkrum árum. Bradford samdi svo við finnskt lið fyrir þessa leiktíð, en var látinn fara frá liðinu um áramótin.
Það þarf ekki að hafa mörg orð um liðsstyrkinn sem þeir grænu fá með Nick Bradford og það er ljóst að Keflvíkingar, sem voru að fá nýjan leikmann, hefðu reynt að klófesta hann, hefðu þeir ekki verið búnir að fá annan.
Njarðvíkingar eru í toppbaráttunni með 18 stig í öðru sæti deildarinnar, jafn mörg stig og Stjarnan og KR sem eru í fyrsta og þriðja sæti úrvalsdeildarinnar. Þeir hafa komið einna mest á óvart í deildinni í vetur, kanalausir hafa þeir vermt toppsætið í langan tíma. Þeir verða örugglega ekki árennilegir með Bradford innanborðs. Það verður spennandi að fylgjast með körfunni á næstunni því deildin er hálfnuð og nú hefst seinni hálfleikur og úrslitakeppnin hefst í mars.