Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Box-sprengja - Stórmót á næstunni
Föstudagur 9. febrúar 2007 kl. 13:09

Box-sprengja - Stórmót á næstunni

Mikill uppgangur hefur verið í hnefaleikaíþróttinni á Suðurnesjum það sem af er vetri og er nú undirbúningur í fullum gangi fyrir stórmót þegar írskur hnefaleikaklúbbur mætir til landsins og keppir við Hnefaleikafélag Reykjaness þann 17. febrúar í „nýju“ og glæsilegu húsnæði í gömlu sundhöllinni í Keflavík.


Í samtali við Víkurfréttir sagði Guðjón Vilhelm, formaður félagins, að vöxturinn hafi verið ótrúlegur undanfarið og lykill að því sé húsnæðið því undanfarin ár hafi félagið verið á hrakhólum hvað það varðaði.


Nú sé öldin önnur og 109 krakkar á grunnskólaaldri allt niður í 8 ára æfa nú hjá félaginu að ótöldum eldri iðkendum. Stefnan er að ná yfir 200 iðkendur áður en veturinn er úti og jafnvel að nýta byrinn sem nú er í seglunum og fá að halda Íslandsmótið í ár hér suður frá.


Guðjón er sjálfur nýkominn frá Svíþjóð þar sem hann dæmdi í sinni fyrstu atvinnumannakeppni, en sú keppni var líka eftirminnileg vegna þess að þetta var í fyrsta sinn í 37 ár sem keppt er í atvinnumannaboxi í Svíþjóð. „Það var algjör draumur. Maður fær að sitja alveg upp við hringinn og fær borgað fyrir það á meðan fólkið sem situr fyrir aftan þig er kannski að borga tugi þúsunda fyrir sín sæti.“

Guðjón bætir því við að þar hafi hann fengið dýrmæta reynslu sem muni nýtast honum vel í framtíðinni.


Mikið er af ungum og efnilegum hnefaleikaköppum meðal lærisveina Guðjóns sem segir þó sárt að hafa misst marga hæfileikríka boxara úr sínum röðum undanfarin misseri. „Framtíðin er samt björt hjá okkur og ég sé nú þegar stráka sem gætu á endanum farið framúr þeim sem voru áður.“


Nánar verður fjallað um mótið þegar nær dregur, en Guðjón vill að lokum þakka þeim fjölmörgu sem lögðust á eitt við að standsetja sundhöllina á dögunum en án þeirra framlags væri félagið ekki á þeim stað sem það er í dag.

Vf-myndir/Þorgils: Frá æfingu hnefaleikafélagsins. Æfingar eru fjórum sinnum í viku í gömlu sundhöllinni

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024