Borðtennis: Jóhann farinn til Búdapest
Borðtenniskappinn Jóhann Rúnar Kristjánsson er kominn aftur á fulla ferð eftir veikindi og stimplaði sig rækilega inn á móti í Dublin fyrir skemmstu. Þar lenti hann í 3. sæti, bæði í tvíliðaleik þar sem hann lék með breskum spilara og í sínum flokki.
Þá fékk Jóhann einnig þær góðu fréttir að hann hefði skotist upp um ein 10 sæti á heimslista og tryggt sér þátttökurétt á heimsmeistaramótinu sem fram fer í september.
Jóhann er í fantaformi þessa dagana og tók þátt á móti í Liverpool um síðustu helgi en árangurinn þar lét eitthvað á sér standa þrátt fyrir að Jóhann hefði sigrað Stephane Molliens, sem er í 2. sæti heimslistans í flokki Jóhanns. „Ég fékk flensu úti í Liverpool og varði mestum tímanum uppi á hóteli,“ sagði Jóhann í samtali við Víkurfréttir en hann fór til Búdapest í gær til þess að taka þátt í alþjóðlegu punktamóti sem fram fer um helgina.
„Keppnisformið hefur aldrei verið betra hjá mér og um helgina mæti ég Jan Riapos sem er efstur á heimslistanum.“ Heimsmeistaramótið fer fram í september og nái Jóhann verðlaunasæti þar er hann öruggur inn á Ólympíuleikana 2008.