Boltinn byrjaður að rúlla í Nettó mótinu í körfu
Fyrstu leikirnir í Nettó-mótinu í körfubolta hófust í morgun kl. 8 í öllum íþróttahúsum Reykjanesbæjar. Mótið stendur yfir í tvo daga og má búast við miklu fjöri eins og ávallt í þessu skemmtilega móti.
Um fimmtán hundruð ungir körfuboltamenn taka þátt í mótinu. Þeir koma frá 24 félögum sem senda alls frá sér 185 lið.
Til samanburðar má geta þess að 148 keppnislið léku á mótinu í fyrra þannig að aukningin er heil 25%.
Auk þess að keppa í körfubolta fara krakkarnir í bíó og sund og svo er kvöldvaka í kvöld. Með keppendunum eru foreldrar og má því búast við að nærri þrjú þúsund gestir verði í Reykjanesbæ um helgina út af mótinu.
Félögin sem taka þátt í ár eru eftirfarandi:
Ármann, Breiðablik, Fjölnir, FSu, Grindavík, Haukar, Hörður, Höttur, ÍA, ÍR, Keflavík, KFÍ, Kormákur, KR, Njarðvík, Sindri, Skallagrímur, Snæfell, Stjarnan, Tindastóll, UMF Hekla, Valur, Þór Akureyri, og Þór Þorlákshöfn.
Meðfylgjandi myndir voru teknar í leik Keflavíkur og Þórs, Þorlákshöfn, í Akurskóla í morgun í aldursflokki 11-12 ára. Víkurfréttir munu fygljast með mótinu og setja ljósmyndagallerí inn í dag og á morgun.