Boltasumarið hefst á morgun
Knattspyrnusumarið 2008 hefst formlega laugardaginn 10. maí þegar leikar hefjast í Landsbankadeild karla. Suðurnesjaliðin Keflavík og Grindavík verða í Landsbankadeildinni í sumar og munu Keflvíkingar hefja leik gegn Íslandsmeisturum Vals. Grindvíkingar hefja leik í Vesturbænum gegn KR. Leikur KR og Grindavíkur hefst kl. 14:00 á laugardag en Keflvíkingar taka á móti Valsmönnum kl. 16:15 á Sparisjóðsvellinum í Keflavík og verður leikurinn í beinni útsendingu hjá Stöð 2 Sport. Töluverðar breytingar hafa orðið á Suðurnesjaliðunum öllum og verður fróðlegt að sjá hvernig þeim mun vegna í baráttunni en aukið álag frá fyrri leiktíðum mun væntanlega gera vart við sig í sumar þar sem liðum hefur fjölgað í efstu deildum.
,,Mér líst vel á að mæta Íslandsmeisturunum í fyrsta leik því öll pressan er á þeim. Íslandsmeistarar eiga yfirleitt að koma inn í mótin með glæsibrag svo það verður minni pressa á Keflavík. Valsmenn telja sig kannski komna í einhvern gír enda gengið vel undanfarið hjá þeim en þegar þú ert kominn út á gras þá telja úrslitin í æfngaleikjum á gervigrasi lítið. Vissulega eru þeir með þéttan hóp og skipulagið hjá þeim virðist í góðum málum,” sagði Guðmundur Steinarsson fyrirliði Keflvíkinga í samtali við Víkurfréttir. En hver er staðan á Keflvíkingum?
,,Staðan á Keflavíkurhópnum er nokkuð góð. Þegar grasið fór að grænka tóku margir leikmenn við sér og við erum með stærri hóp í ár en á síðustu leiktíð. Við spenntum bogann hátt í fyrra og kannski aðeins of hátt en voru þá hugsanlega með betri einstaklinga í hópnum en núna erum við með betra lið,” sagði Guðmundur og átti ekki von á því að Keflavíkurliðið myndi þurfa að horfa á eftir einhverjum leikmönnum í atvinnumennsku á miðri leiktíð. ,,Ekki núna nema til komi eitthvert risatilboð,” sagði Guðmundur og bætti við að Keflavíkurliðið hefði sett sér góð markmið fyrir sumarið en vildi ekki gefa upp að svo stöddu hver þau væru.
Milan Stefán Jankovic er þjálfari Grindvíkinga og sagði hann að undirbúningstímabilið hefði verið langt og strangt og að töluverð spenna væri komin hjá Grindvíkingum fyrir fyrsta leik. ,,Það er alltaf gaman að spila á móti KR og gaman fyrir strákan að spila fyrsta leik mótsins á KR velli enda von á mörgum áhorfendum í leik þar sem allt getur gerst. KR er með gott lið og við vitum það en við förum í Vesturbæinn til þess að spila okkar bolta,” sagði Milan sem var þokkalega sáttur við undirbúningstímabilið.
,,Við vorum ekki með neina velli til þess að æfa á í vetur og fórum bara einu sinni í Reykjaneshöllina en eigum samt von á okkar eigin húsnæði núna í lok maí. Síðustu þrír æfingaleikir okkar hafa verið góðir og vonandi erum við komnir í rétt form svona síðustu dagana fyrir mót,” sagði Milan en eins og oft áður hafa sparkspekingar og fjölmiðlar verið að spá Grindvíkingum falli. ,,Við erum með frekar lítinn hóp þetta sumarið og ef við sleppum við meiðsli þá getur þetta orðið gott mót hjá okkur.”
Lilja Íris Gunnarsdóttir, fyrirliði Keflavíkurkvenna, var sátt við undirbúningstímabilið og æfingaleikina í vetur og segir Keflvíkinga hafa sett sér skýr markmið fyrir sumarið.
,,Það urðu engar svakalegar breytingar á hópnum fyrir þessa leiktíð en í ár verðum við aðeins með þrjá erlenda leikmenn, þær Vesnu, Dönku og Jelenu. Þá hefur Linda Rós Þorláksdóttir komið til okkar frá Val,” sagði Lilja en framherjinn skæði, Guðný Petrína Þórðardóttir, er að verða góð af meiðslum sínum sem héldu henni utan vallar nánast alla síðustu leiktíð. ,,Ég er sátt við undirbúningstímabilið hjá okkur en fyrsta útiæfingin var á mánudag og vellirnir eru kannski ekki í toppstandi sem veldur smá áhyggjum en á þeim grundvelli eru allir settir undir sama hatt. Í ár tel ég Keflavíkurliðið geta strítt toppliðunum og von á mikilli baráttu á milli Vals og KR en okkar markmið eru að ná þriðja sætinu,” sagði Lilja Íris en kvennalið Keflavíkur mun skarta nýjum búningum í sumar og þá var Kjartan Einarsson nýverið ráðinn sem aðstoðarþjálfari hjá Salih Heimi.
Njarðvíkingar hefja svo leik í 1. deild karla á mánudag þegar þeir fá Stjörnuna í heimsókn á Njarðvíkurvöll kl. 17:00. Vefmiðillinn fotbolti.net spáði Njarðvíkingum í ellefta og næstneðsta sæti deildarinnar. Liðið hefur misst marga reynslubolta á borð við Alfreð Elías Jóhannsson, Albert Sævarsson og Martein Guðjónsson en margir ungir leikmenn hafa verið að stíga upp á undirbúningstímabilinu. Ísak Örn Þórðarson er einn þeirra ungu leikmanna sem fengið hafa tækifæri og hefur hann skorað grimmt í æfingaleikjum og Lengjubikarnum.
Fyrstu leikir Suðurnesjaliðanna
10. maí KR-Grindavík kl. 14:00 kk
10. maí Keflavík-Valur kl. 16:15 kk
12. maí Njarðvík-Stjarnan kl. 17:00 kk
13. maí Keflavík-KR kl. 19:15 kvk
16. maí Hamar-Reynir kl. 20:00 kk
16. maí Víðir-Höttur kl. 20:00 kk
23. maí Hamrarnir/Vinir-Þróttur V. kl. 20:30 kk
3. júní ÍA-GRV kl. 20:00 kvk