Boðið til Englands
Fyrstudeildarliðið Plymouth Argyle í Englandi bauð tveimur efnilegum leikmönnum úr 4. flokk hjá Njarðvík til æfinga í síðustu viku.
Þetta voru þeir Kristjón Hjaltested og Haukur Harðarsson en þeir æfðu með u-16 ára liði þeirra. Að sögn Freys Sverrissonar þjálfara þeirra sem fór með þeim út ásamt Leif Gunnlaugssyni, formanni knattspyrnudeildar Njarðvíkur, stóðu þeir sig mjög vel.
„Þeir eru að vinna frábært starf í yngriflokkamálum og eru að fylgjast með leikmönnum um allan heim, og hafa unnið sig upp úr 3. deild í þá fyrstu á 3 árum og stefna hátt. Þetta var mikil lærdómur fyrir strákana og ekki síður fyrir okkur Leif þar sem við kynntum okkur ýmislegt varðandi félagið,“ sagði Freyr.
Með aðalliði Plymouth Argyle leikur Bjarni Guðjónsson en hann bauð hópnum í mat hjá sér eitt kvöldið og voru strákarnir í skýjunum að fá að hitta Bjarna og fjölskyldu.