Blue Car Rental bakhjarl Landsmóts UMFÍ 50+
– Bílaleigan styrkir íþróttaviðburð í fyrsta sinn í Vogum
„Við höfum alltaf lagt okkur fram um að styrkja íþróttafélög og viðburði í nærsamfélaginu. Styrkur við mótið markar tímamót því þetta er í fyrsta skiptið sem við styrkjum viðburð í Vogunum,“ segir Þorsteinn Þorsteinsson, framkvæmdastjóri Blue Car Rental.
Hann skrifaði á dögunum fyrir hönd bílaleigunnar undir samning sem styrktaraðili Landsmóts UMFÍ 50+, sem verður í Vogum á Vatnsleysuströnd dagana 6. – 9. júní. Mótið hefur verið haldið árlega um allt land og aldrei á sama stað. Mótið er nú í fyrsta sinn haldið í Vogum.
Undir samninginn skrifaði Ómar Bragi Stefánsson, framkvæmdastjóri móta UMFÍ.
STRANDARHLAUP BLUE
Á meðal viðburða á mótinu er Strandarhlaup Blue, sem verður ein af opnum greinum mótsins. Tíu ár eru síðan blásið var í fyrsta sprettinn í því. Allir sem vilja geta tekið þátt í Strandarhlaupi Blue.
Keppt verður í tveimur aldursflokkum, 49 ára og yngri og 50 ára og eldri. Hægt er að velja á milli tveggja vegalengda, fimm og tíu kílómetra hlaupa.
GÓÐGERÐARFEST
Blue Car Rental hefur styrkt íþrótta- og góðgerðarfélög víða á Suðurnesjum í gegnum tíðina og haldið í nokkur ár svokallað Góðgerðarfest þar sem safnað er styrkjum frá fyrirtækjum og einstaklingum á svæðinu og því skipt á milli góðgerðarfélaga á Suðurnesjum.
Á meðal þeirra sem hafa hlotið styrk eftir Góðgerðarfestið er Minningarsjóður Ölla, sem styrkir börn til íþróttaiðkunar sem ekki eiga kost á því, yfirleitt vegna bágrar fjárhagsstöðu forráðamanna. Sjóðurinn borgar meðal annars æfingagjöld, æfingabúnað, keppins- og æfingaferðir. Öspin, sem er miðlæg sérdeild á vegum Reykjanesbæjar, hefur sömuleiðis hlotið styrk eftir festið.
ÞETTA ER LANDSMÓT UMFÍ 50+
Landsmót UMFÍ 50+ stendur yfir frá 6. – 9. júní. Boðið er upp á keppni í 20 íþróttagreinum og fjölmörgum öðrum greinum sem mótsgestir geta prófað og keppt í við yngri þátttakendur. Heilmikil afþreying og skemmtun verður í boði á sama tíma, þrennir heimatónleikar, matar- og skemmtikvöld og ýmislegt fleira.
Á meðal greina mótsins:
Boccia - Brennibolti - Borðtennis - Bridds - Frisbígolf - Frjálsar íþróttir - Golf - Hjólreiðar - Kasína - Línudans - Petanque - Pílukast - Pönnukökubakstur - Pútt - Ringó - Skák - Stígvélakast - Strandarhlaup og Sund.
Hér er hægt að kynna sér allt sem er í boði er á www.umfi.is.