Blómastúlkur lágu enn í Bítlabænum
Keflavíkurstúlkur sigruðu lið Hamars frá Hveragerði með 9 stiga mun í hröðum leik í Toyota höllinni í kvöld, en þær pressuðu stíft allan leikinn. Staðan í hálfleik var 57-42 fyrir heimamönnum en Hamarsstúlkur komu þó nokkuð sterkar inn í seinni hálfleikinn og náðu að saxa örlítið á forskotið, en þó virtist sigur Keflavíkurkvenna í raun aldrei í hættu. Lokatölur leiksins voru 92-83. Í liði Hamars fór Julia Demirer á kostum en hún skoraði 34 stig og reif niður 27 fráköst, og var með 51 stig í framlagseinkunn, sem þykir ótrúlegur árangur. Hjá Keflavík var Birna Valgarðsdóttir stigahæst með 31 stig og 6 fráköst, en á eftir henni kom Pálína Gunnlaugsdóttir með 18 stig, 7 stoðsendingar og 4 fráköst.