Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Blóðugur baráttusigur hjá Keflavík gegn Njarðvík
Mánudagur 22. nóvember 2010 kl. 22:31

Blóðugur baráttusigur hjá Keflavík gegn Njarðvík

„Þetta var enginn gæðakörfubolti frekar en yfirleitt þegar þessi nágrannalið mætast en sigurinn var okkar og það skiptir máli,“ sagði Hörður Axel Vilhjálmsson, leikmaður Keflavíkur eftir sigur í hörkuleik í Iceland Express deildinni í körfubolta í Toyota höllinni í kvöld. Lokatölur urðu 78-72.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Baráttan var mikil og Hörður þurfi að fara af leikvelli þar sem blóðið rann niður andlit hans eftir fjör í teig Njarðvíkur. Gert var að sárinu og Hössi fór síðan aftur inn á völlinn. „Þetta var alvöru nágrannaslagur og erfiður leikur eins og alltaf gegn Njarðvík. Þeir eru miklu betri en staða þeirra í deildinni segir til um,“ sagði Hörður.

„Við hefðum getað klárað þetta þegar við vorum komnir yfir en hlutirnir féllu ekki með okkur. Það er oft þannig þegar illa gengur,“ sagði Sigurður Ingimundarson, þjálfari Njarðvíkur.
Hvað segir þjálfarinn eftir fimmta tapið í röð?
„Við höldum áfram ótrauðir. Það er ekkert annað á dagskrá, förum í hvern leik með það hugarfar að vinna“.

Það var útlit fyrir öruggan Keflavíkursigur á upphafskafla leiksins. Heimamenn röðuðu niður körfum og leiddu 24-14 eftir fyrsta leikhluta þar sem Gunnar Einarsson tróð með tilþrifum rétt áður en flautað var til næsta leikhluta. Gunnar treður ekki oft en sýndi það þarna að hann fer létt mað það. Hann hélt áfram í upphafi annars leikhluta og byrjaði á þristi og kom Keflavík í 13 stiga forskot, 27-14 en þá vöknuðu Njarðvíkingar og þeir voru miklu betri það sem eftir lifði til hálfleiks. Keflvíkingar hengu þó á þriggja stiga forskoti 37-34.

Hæsti maðurinn á vellinum, Egill Jónasson kom Njarðvíkingum yfir í fyrsta sinn 39-41 með fallegri troðslu en Lazar Trifunovic kom Keflavík aftur yfir með svakalegri troðslu í hina körfuna. Það vantaði ekkert upp á einstaklingstilþrifin inn á milli þó svo mistökin væru mikil á báða bóga og gæði körfuboltans ekki mikil, hvorki í vörn né sókn, hjá báðum liðum. Eftir þriðja leikhluta var munurinn fjögur stig, heimamönnum í vil 59-55 en þeir grænu komust í fimm stiga forskot 62-67 þar sem Rúnar Erlings setti niður þrist, Chris Smith og Magnús Gunnarsson bættu við körfum og nú leist áhagendum Keflavíkur ekki á blikuna því lítið gekk hjá þeirra mönnum. Valentino skoraði næstu fimm stig og jafnaði aftur og síðan voru heimamenn sterkari á lokamínútunum og sigruðu með sex stiga mun 78-72.

Fimmta tap Njarðvíkur var staðreynd en Keflvíkingar hafa verið á góðu skriði eftir liðsstyrkinn sem þei fengu eftir fjóra leiki í deildinni. Þar hefur innkoma Serbans Lazars Trifunovic haft mikið að segja en hann skoraði 28 stig og tók 15 fráköst í þessum leik. Frábær leikmaður þar á ferð. Valentino Maxwell skoraði 16, Sigurður Þorsteins 12, Hörður Axel 11 og Gunnar Einarsson tíu stig, öll í fyrri hálfleik. Hjá Njarðvík skoraði Cristopher Smith 15 stig og Guðmundur Jónsson var með 14 og var bestur hjá Njarðvík. Friðrik Stefánsson var með 9 og Páll Kristinsson, Jóhann Ólafsson og Lárus Jónsson sex, aðrir minna.

Þriðja Suðurnesjaliðið, Grindavík tapaði með tveggja stiga mun í Hveragerði gegn Hamri, 78-76.

Efsta mynd: Hörður Axel blóðugur eftir harða baráttu í teig Njarðvíkinga. Svona er fjörið í þessum nágrannaleikjum. VF-myndir/Páll Orri.

Texti: Pket.

Gunnar Einarsson var öflugur í fyrri hálfleik.

Jóhann Ólafsson sækir að körfu Keflavíkur.

Serbinn Lazar Trifunovic var besti maður vallarins í kvöld.

Magnús Gunnarsson skoraði 9 stig en náði sér ekki verulega á strik.

Þær voru nokkrar troðslurnar í kvöld hjá báðum liðum. Hér er Sigurður Þorsteinsson með eina.

Villi Keflvíkingur klikkar aldrei með kústinn og þurrkar upp svitann á gólfinu.