Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Blóð, sviti og tár
Föstudagur 15. febrúar 2008 kl. 11:18

Blóð, sviti og tár

,,Ef við ætlum að vinnan þennan deildarmeistaratitil þá verðum við að vinna KR í kvöld. Við megum ekki tapa og ef við vinnum þá erum við komnir langt með að landa efsta sætinu í deildinni,” segir fyrirliði Keflavíkur, Magnús Þór Gunnarsson.

 

Sannkallaður toppslagur verður í Vesturbænum í kvöld þegar topplið Keflavíkur mætir KR í DHL-Höllinni kl. 19:15. Keflavík er á toppi Iceland Express deildar karla í körfuknattleik með 28 stig en Íslandsmeistarar KR hafa 26 stig í 2. sæti. Með sigri í kvöld getur Keflavík náð fjögurra stiga forskoti á KR.

 

,,KR er með nokkuð breytt lið frá því við mættum þeim síðast en þetta verður blóð, sviti og tár, alvöru leikur,” sagði Magnús en fyrri deildarleikur liðanna var magnaður af hálfu Keflavíkur sem skelltu Íslandsmeisturunum 107-85. Magnús þekkir það að fagna sigri í DHL-Höllinni þar sem hann tryggði Keflavík sigurinn á KR leiktíðina 2005-2006 með þriggja stiga flautukörfu.

 

,,Við viljum klára þennan leik á föstudag fyrr heldur en að treysta á flautukörfu en eigum við ekki bara að segja að kallinn klári þetta aftur á síðustu sekúndunni,” sagði Magnús léttur í bragði.

 

Eftir áramót hafa Keflvíkingar ekki náð að finna taktinn góða sem var í liðinu fyrri hluta Íslandsmótsins en Magnús segir að nú sé allt að smella í herbúðum Keflvíkinga. ,,Seinni hálfleikur gegn ÍR var fínn en leikir eftir áramót t.d. gegn Grindavík, Snæfell og Njarðvík voru lélegir leikir, við þurfum bara að byrja okkar tímabil aftur með því að vinna KR.”

 

Þá mætast Fjölnir og ÍR í Grafarvogi og eru þessir tveir leikir þeir síðustu í 17. umferð.

 

VF-Mynd/ [email protected] - Magnús og félagar í Keflavík mæta Íslandsmeisturum KR í kvöld.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024