Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Bleikur krónuflokkur frá Suðurnesjum
Föstudagur 17. október 2014 kl. 22:47

Bleikur krónuflokkur frá Suðurnesjum

– „Ég læt aldrei sjá mig á bleikum bíl,“ sagði einn keppandi í krónuflokki

Keppt verður í Rallycross á morgun, laugardag, á keppnisbrautinni við Krýsuvíkurveg í Hafnarfirði. Þrír keppendur eru í 2WD krónuflokki og koma þeir allir frá Suðurnesjum.

Í tilefni af bleikum októbermánuði tóku keppendurnir frá Suðurnesjum í 2WD krónuflokki sig saman og máluðu keppnisbíla sína í bleikum lit. Þeir voru jafnframt allir merktir með bleikri slaufu.

Upphaflega stóð aðeins til að mála tvo af bílunum bleikum en fyrst nóg var til af bleikri málningu var klárað úr dósinni á þriðja bílinn, án þess þó að eigandi hans vissi af ráðabrugginu.

Hann fékk að sjá mynd af keppnisbílum andstæðinganna eftir að þeir höfðu verið málaðir bleikir og lét þau orð falla að hann myndi aldrei láta sjá sig á bleikum bíl. Það var því eitthvað undarlegur á honum svipurinn þegar hann sá sinn bíl í sama bleika litnum.

Eins og áður segir eru þrír keppendur á morgun í þessum krónuflokki. Þeir eru allir frá Suðurnesjum og verða allir á bleikum bíl. Það getur því orðið erfitt að lýsa keppninni í sjónvarpi en þó er víst að bleikir bílar munu raða sér á verðlaunasætin á morgun.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024