Blautur á bak við eyrun tippar
„Hvað viljið þið hjá Víkurfréttum fá í hádeginu,“ spurði Magnús Þórisson á Réttinum þegar honum var tilkynnt að hann hefði haft betur gegn Björgu Hafsteinsdóttur í tippleik Víkurfrétta. Maggi vann með minnsta mögulega mun, þ.e.a.s. þau voru jöfn með sjö leiki rétta, voru með sömu niðurstöðu alla leið niður í næstsíðasta möguleikann til að ná fram úrslitum. Hann var með fleiri rétta á fyrstu þremur leikjunum, var með þá alla rétta gegn tveimur leikjum réttum hjá Björgu. Björgu er hér með þökkuð þátttakan.
Einn Íslendingur af 50 getspökum í Skandinavíu náði þrettán réttum og fékk rúmar 4,5 milljónir í sinn vasa. 22 Íslendingar fengur tæpar 30 þúsund krónur fyrir tólf rétta.
„Ha, hvað er það? Að tippa?“ spurði áskorandi vikunnar, kokkurinn, sölumaður SS á lambakjöti og formaður bæjarráðs Suðurnesjabæjar, Anton Guðmundsson. Það þurfti talsverðar fortölur til að fá Anton að tippborðinu en á endanum ákvað hann að slá til og segist ekki hræðast fyrrum vinnuveitanda sinn en Anton vann um tíma hjá Magga á Réttinum.
„Fjandakornið hafi það, ég mun varla gera meira í buxurnar heldur en annar fyrrum starfsmaður Magga. Það er spurning hvort ég nýti mér tölvuvalið en hins vegar yrði gaman að prófa að tippa alveg blint en ég fylgist ekkert með þessu lengur. Ég veit samt að Manchester United er besta liðið. Þegar ég var yngri fylgdist ég eitthvað með en ég hef engan tíma í það lengur. Er ekki United annars ennþá besta liðið?
Ég er búinn að vera sölumaður hjá SS síðan 2022, er að selja íslenska lambakjötið okkar, sem er það besta í heiminum. Svo er ég auðvitað á kafi í bæjarpólitíkinni í Suðurnesjabæ, við erum á fullu núna að velta við öllum steinum til að komast að sem bestri niðurstöðu á hvar nýr gervigrasvöllur muni rísa í Suðurnesjabæ. Sem betur fer erum við með flotta óháða aðila sem munu benda okkur á kosti og galla á viðkomandi stað og úr verður mikið framfaraskref fyrir knattspyrnu í Suðurnesjabæ, að fá gervigrasvöll. Þetta mun klárlega bæta aðstöðuna, þá sérstaklega fyrir börnin okkar, sama hvort völlurinn muni rísa í Garðs- eða Sandgerðishluta Suðurnesjabæjar. Eðlilega getur völlurinn ekki verið báðum megin og annar hvor hlutinn þarf að sætta sig við niðurstöðuna. Við stefnum á að ákvörðun liggi fyrir fyrir sumarið og framkvæmdir hefjist fljótlega en ég treysti mér ekki á þessum tímapunkti að segja til um hvenær völlurinn verður tilbúinn,“ sagði Anton.
„Mér líst vel á að mæta kollega, Anton stóð sig mjög vel á sínum tíma þegar hann vann hjá mér. Ég er keppnismaður og var því eðlilega ánægður að vita að ég hefði náð að vinna Björgu, þetta var greinilega hörkurimma hjá okkur og sem betur fer hafði ég betur, þakka henni kærlega fyrir leikinn. Athyglisvert hjá ykkur að velja mann sem veit varla hvernig fótbolti lítur út, það verður gaman að sjá hvernig honum reiðir af í tippinu. Ég ætti að vera sigurviss þar sem Anton hefur ekki hundsvit á enska boltanum en stundum getur það komið sér vel. Ég veit að það er nóg að gera hjá Antoni og öðrum bæjarfulltrúum í Suðurnesjabæ, ég öfunda þá ekki af þessari stóru ákvörðun, um hvar gervigrasvöllurinn eigi að rísa. Ég myndi auðvitað vilja sjá hann rísa í Sandgerði þar sem ég er Sandgerðingur en það er aukaatriði, aðalmálið er að það sé að rísa gervigrasvöllur,“ sagði Maggi að lokum.