Blakala varði víti og átti stórleik
Njarðvík og Þór Akureyri skildu jöfn í fjörlegum leik í Lengjudeild karla í knattspyrnu sem fór fram á Rafholtsvellinum í Njarðvík í dag. Úrslit leiksins urðu 2:2 og skoruðu Þorsteinn Örn Bernharðsson og Oumar Diouck mörk Njarðvíkur. Robert Blakala þurfti nokkrum sinnum að taka á honum stóra sínum í marki Njarðvíkur og varði m.a. víti.
Njarðvíkingar voru gríðarlega líflegir í upphafi leiks og uppskáru mark eftir hornspyrnu á 6. mínútu leiksins. Þar var að verki Þorsteinn Örn Bernharðsson sem fékk boltann fyrir fæturna og sendi snyrtilega í netið.
Skömmu eftir markið var Þorsteinn nærri því að tvöfalda forystu Njarðvíkur eftir aðra hornspyrnu en fyrirgjöfin var örlítið of há og hann skallaði yfir.
Heimamenn voru búnir að vera mjög ógnandi þessar fyrstu mínútur og uppskera mark en eftir tíu, fímmtán mínútna leik fór að hægja á leik Njarðvíkinga. Þór jafnaði metin á 22. mínútu og voru gestirnir þá búnir að yfirtaka leikinn. Þeir sóttu stíft og má þakka Blakala þakka fyrir að Njarðvík hafi ekki lent undir fyrir hálfleik en hann varði nokkrum sinnum mjög vel.
Seinni hálfleikur var nánast endurtekning á þeim fyrri. Njarðvíkingu leikinn af krafti og komust yfir þegar Oumar Diouck vann einvígi við varnarmann Þórs af miklu harðfylgi (jaðraði við að vera brotlegur), brunaði upp að endamörkum skoraði úr þröngri stöðu (52').
Aftur féllu Njarðvíkingar í þá gryfju að fara að slaka á og hleypa Þórsurum inn í leikinn. Þór fór að sækkja og fékk dæmda vítaspyrnu nokkrum mínútum eftir mark Njarvíkinga. Hvað gerðist virtist enginn vita nema dómarinn og vítaspyrnudómurinn kom gestaliðinu jafnmikið á óvart og heimamönnum.
Robert Blakala varði hins vegar vítið og Njarvíkingar hreinsuðu í horn. Þór tók góða hornspyrnu en heimamenn náðu að bægju hættunni frá og gestirnir fengu annað horn. Úr því jöfnuðu Þórsarar leikinn með að skora beint en Blakala var nærri því að ná til boltans. Einhver miskilningur varð í vörninni því enginn tók nærstöngina og Blakala átti að sjá um fjærstöngina.
Mörkin hefðu hæglega getað orðið fleiri en lokatölur 2:2 og fjórða jafntefli Njarðvíkur í átta umferðum staðreynd.
Jóhann Páll Kristbjörnsson, ljósmyndari Víkurfrétta, tók stutt viðtal við Þorstein Örn eftir leik. Viðtalið er í spilaranum hér að neðan og myndasafn neðst á síðunni.