Bláa lónið styrkir íþróttafélögin á Suðurnesjum
Bláa lónið hefur úthlutað tæplega þrettán milljónum króna til styrktar íþróttafélögunum á Suðurnesjum. Fulltrúar félaganna komu í Bláa lónið á fimmtudaginn til að veita styrkjunum viðtöku en þeim er ætlað að styðja við uppbyggingu íþróttastarfs barna og unglinga á Reykjanessvæðinu.
Grímur Sæmundsen, forstjóri Bláa lónsins, segir það mikilvægt fyrir Bláa lónið að styðja nærsamfélagið og koma með öflugum hætti að íþrótta- og æskulýðsstarfi á Suðurnesjum. „Suðurnesjamenn eru þekktir fyrir góðan árangur í íþróttum og það má ekki síst þakka öflugu og óeigingjörnu starfi sem unnið er innan íþróttahreyfingarinnar. Bláa lónið hefur um margra ára skeið stutt við þetta frábæra starf og það er okkur sönn ánægja að leggja okkar af mörkum,“ sagði Grímur.
Eiríkur Leifsson, framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Grindavíkur, þakkaði fyrir stuðninginn er hann tók við styrknum fyrir hönd UMFG. „Við höfum séð með eigin augum hversu góð áhrif íþróttir hafa á unga fólkið okkar. Þær stuðla meðal annars að góðri líðan, jákvæðari líkamsímynd, betri námsárangri svo ekki sé talað um forvarnargildi þeirra. Íþróttalíf blómstrar ekki af sjálfu sér og þurfa góðir bakhjarlar að vera til staðar. Við þökkum stjórnendum Bláa lónsins fyrir áratuga stuðning við íþróttalíf á svæðinu,“ sagði Eiríkur.
Grímur skrifar undir með knattspyrnumönnum Keflavíkur.
Þróttarar í Vogum eru meðal félaga á Suðurnesjum sem fengu styrk. Hér tekur Marteinn Ægisson í hönd Gríms.