Bjóst ekki við svona stóru hlutverki
Guðlaug Björt Júlíusdóttir er 16 ára leikstjórnandi Njarðvíkinga í Dominos-deild kvenna í körfubolta.
Guðlaug Björt Júlíusdóttir er 16 ára leikstjórnandi Njarðvíkinga í Dominos-deild kvenna í körfubolta. Hún bjóst ekki við því að fá að spila mikið í vetur en annað hefur verið uppi á teningnum það sem af er tímabili. Hún hefur verið að leika um 25 mínútur í leik þar sem hún hefur verið að skora að jafnaði 7 stig. Það hvílir töluverð ábyrgð á herðum þessa unga og efnilega leikmanns. Flestir sem fylgjast með íslenskum körfubolta vita að þjálfari og leikmaður Njarðvíkinga, Lele Hardy, fer fyrir liðinu í flestum tölfræðiflokkum. Reyndar leiðir Hardy Njarðvíkurliðið í 21 af 25 flokkum tölfræðinnar.
Í fyrra var Guðlaug ekkert inni í myndinni hjá liðinu en miklar breytingar áttu sér stað eftir að Njarðvíkingar lönduðu tveimur langþráðum titlum árið 2012. „Ég bjóst ekki við því að fá svona stórt hlutverk. Ég hef fengið töluverða reynslu á þessu tímabili gegn erfiðum andstæðingum. Stefnan hjá Njarðvík er að byggja á uppöldum leikmönnum og við erum að njóta góðs af því,“ segir Guðlaug. „Allt frá upphafi tímabils var rætt við okkur um að nú þyftum við að sýna hvað í okkur byggi,“ en Guðlaug segir það hafa verið nokkuð stórt skref að taka að leika í úrvalsdeildinni. „Það er mikill munur frá yngri flokkunum. Þarna er töluvert meiri harka og sterkari leikmenn. Þar sem ég spila frekar erfiða stöðu þá er ég oft að mæta sterkum varnarmönnum.“
Guðlaug var ein þeirra sem valin var í unglingalandslið Íslands og mun halda til Solna í Svíþjóð nú í vor og leika á Norðurlandamótinu. Þar leikur hún með 18 ára liðinu ásamt mörgum af þeim stelpum sem hún hefur verið að etja kappi við í gegnum tíðina. Guðlaug er á sama aldursári og Sara Rún Hinriksdóttir og sterkur árgangur hennar í Keflavík. Oftar en ekki hafa Njarðvíkurstúlkur þurft að sætta sig við ósigur gegn grönnum sínum. „Ég vona að þetta sé aðeins að jafnast núna en þær hafa verið sterkar í gegnum árin,“ segir Guðlaug og rifjar upp sigurleik gegn Keflavíkurstúlkum í fyrra sem enn er henni í fersku minni. Þar unnu Njarðvíkingar dramatískan sigur á lokastundu og tryggðu sér Íslandsmeistaratitil í stúlknaflokki.
Norðurlandamótið er framundan og Guðlaug segist spennt fyrir verkefninu. „Það er alltaf gaman að fara á þetta mót enda mikil og dýrmæt reynsla. Þetta er líka frábær hópur sem við erum með núna.“ Guðlaug er ein sex Suðurnesjastúlkna í 12 manna hópi U-18 ára liðsins. „Það er alltaf frekar skrýtið að spila með þessum stelpum sem maður er oft að keppa gegn. Það tekur smá tíma að kynnast en ég hef eignast fullt af vinkonum sem maður átti aldrei von á að yrðu vinkonur manns,“ segir Guðlaug og hlær. „Hreint út sagt þá líkaði mér illa við Keflvíkingana hérna áður fyrr, en í dag eru þær margar orðnar góðar vinkonur mínar.“
Guðlaug er ein af þeim sem æfir nokkuð aukalega og þá sérstaklega á sumrin. Það virðist vera orðin lenska hjá ungum Njarðvíkingum að æfa vel á sumrin. „Þá eru skotæfingar á hverjum degi og lyftingar stundaðar af kappi,“ segir Guðlaug en þessar æfingar eru hluti af unglingavinnunni hjá þessu efnilega íþróttafólki. Gaman verður að fylgjast með Suðurnesjafólkinu á Norðurlandamótinu í sumar en alls verða 21 Suðurnesjamaður með í för, bæði leikmenn og þjálfarar.
Hver er fyrirmyndin þín í körfunni?
Helena Sverrisdóttir.
Hver er grínistinn í liðinu?
Aníta Carter og hennar moment en svo eru aðrar góðar með.
Hverjir eru bestu íslensku leikmennirnir í Dominos-deild karla og kvenna?
Hildur Sigurðardóttir og Elvar Már Friðriksson.
Hver er besti erlendi leikmaðurinn sem leikur í Dominos-deild karla og kvenna?
Lele Hardy og Aaron Broussard.
Hverjir eru efnilegustu leikmenn landsins um þessar mundir?
Sara Rún Hinriksdóttir og Maciek Baginski.
Hver er uppáhalds NBA leikmaðurinn þinn?
Derrick Rose.
Hver er sætasti sigurinn á ferlinum?
Leikurinn við Keflavík í stúlknaflokki í fyrra þegar við unnum Íslandsmeistarartitilinn.
En sárasti ósigurinn?
Á NM í fyrra þegar við unnum Finna með 5 en þurftum að vinna þá með 7 til að komast í úrslit.
Hver er erfiðasti andstæðingurinn?
Sara Rún Hinriksdóttir