Björn Lúkas kominn í 8 manna úrslit
Björn Lúkas Haraldsson, MMA bardagakappi, er kominn í átta manna úrslit á Heimsmeistaramóti áhugamanna í MMA. Nú þegar hefur Björn Lúkas unnið tvo bardaga á tveimur dögum.
Mótið fer fram í Barein en MMA samband Barein og Ólympíuráð landsins bauð Birni Lúkasi á mótið og hefur greitt allan kostnað fyrir þjálfara hans og Björn sjálfan.
Björn Lúkas æfir með Mjölni en er fæddur og uppalinn Grindvíkingur og er hann eini Íslendingurinn á mótinu.
Í dag mætir Björn Lúkas Ný-Sjálendingnum Stacy Waikato í átta manna úrslitum. Hægt er að fylgjast með bardögum mótsins í gegnum smáforrit BahrainTV en bardögum frá mótinu er streymt í gegnum það.