Björn Lúkas Íslandmeistari þriðja árið í röð
- Góður árangur hjá keppendum af Suðurnesjum í Íslandsmótunum í júdó
Íslandsmótin í júdó fóru fram fyrir skömmu og náðu júdódeildir Grindavíkur og Njarðvíkur fínum árangri. Sigurpáll Albertsson frá Grindavík keppti í fullorðinsflokki og vann til bronsverðlauna.
Sigurpáll keppti í -100 kg flokki og voru þar sex keppendur sem skipt var í tvo riðla. Sigurpáll vann sína fyrstu glímu en tapaði annarri gegn sigurvegara flokksins. Hann komst þó upp úr riðlinum og keppti undanúrslitaglímu þar sem hann var yfir á stigum þar til á lokasekúndunum þegar andstæðingur hans kastaði honum. Hann hafnaði því í 3. sæti
Þá fór fram Íslandsmót U21 árs og kepptu þar þeir Björn Lúkas Haraldsson og Guðjón Sveinsson úr Grindavík. Björn Lúkas varð Íslandsmeistari þriðja árið í röð í -81 kg flokki og vann Guðjón til bronsverðlauna í -73 kg flokki.
Njarðvík sendi 11 keppendur á Íslandsmót barna- og unglinga. Njarðvík vann til 10 verðlauna, eitt gull, fjögur silfur og fimm bronsverðlaun. Hér má finna úrslit í barna- og unglingaflokki og hér í fullorðinsflokki.