Björn Bogi á leið til Heerenveen
Hinn stórefnilegi Björn Bogi Guðnason, leikmaður Keflavíkur, er á förum frá Keflavík til hollenska úrvalsdeildarliðsins Heerenveen en félögin hafa komist að samkomulagi um vistaskiptin.
Björn Bogi fer til Hollands síðar í mánuðinum þar sem hann undirgengst læknisskoðun og að henni lokinni verður honum boðinn þriggja ára samningur við Heerenveen. Björn Bogi er aðeins sautján ára gamall og þykir mjög tæknilegur sóknarmaður. Hann á að baki leiki með yngri landsliðum Íslands auk þess að hafa öðlast reynslu í meistaraflokki, bæði hjá Keflavík í Lengjudeildinni og Víði en Björn Bogi var á láni hjá Víði í annarri deild á síðasta tímabili.
Björn Bogi er úr Garðinum og byrjaði fyrst að æfa knattspyrnu með Víði en skipti svo yfir í Keflavík og spilaði þar í yngri flokkum. Hollenska liðið hefur fylgst lengi með Birni Boga og hann fór á reynslu til Heerenveen í vor þar sem hann lék æfingaleik með liðinu og sýndi hæfni sína þegar hann skoraði fjögur mörk í 9:1 sigri Heerenveen.
Frá þessu er sagt á vefsíðu Heerenveen en þar segir Michel Jansen, yfirþjálfari unglingastarfs Heerenveen, um Björn Boga: „Björn er fimur sóknarmaður og er mjög hæfileikaríkur á Íslandi. Hann kemur vonandi til með að festa sig í sessi með aðalliði okkar í náinni framtíð.“
Á Facebook-síðu knattspyrnudeildar Keflavíkur segir:
„Hinn 17 ára gamli framherji Björn Bogi Guðnason hefur verið seldur til Hollenska stórliðsins Heerenveen sem spilar í efstu deild þar í landi. Björn Bogi kom inní lið Keflavíkur á seinustu leiktíð og lék 4 leiki í Lengjudeildinni en var síðan lánaður til Víðis seinni hluta sumarsins. Björn Bogi kemur úr yngriflokka starfi Keflavíkur og Víðis
Þetta eru stór skref fyrir ungan mann og í næsta tölublaði Víkurfrétta munum við taka hús á Garðbúanum Birni Boga og fjölskyldu hans en það er ljóst að miklar breytingar eru við það að verða á fjölskyldulífinu þar á bæ.