Björk og Jón Arnór fengu Áslaugar- og Elfarsbikarinn
Lokahóf körfuknattleiksdeildar Njarðvíkur fór fram á dögunum þar sem að þeir sem þótt hafa skarað frammúr voru verðlaunuð að venju auk þess sem að Áslaugar- og Elfarsbikarinn voru afhentir.
Áslaugarbikarinn var afhentur í annað sinn en hann er gefinn til minningar um Áslaugu heitina Óladóttur af fjölskyldu hennar og er afhentur efnilegasta kvenleikmanni félagsins á yngri flokka aldri. Elfarsbikarinn hefur verið afhentur í rúm 25 ár en í fyrra var það í fyrsta sinn sem hann var einungis fyrir drengi í yngri flokkum félagsins, eftir að Áslaugarbikarinn bættist við. Elfarsbikarinn er gefinn af fjölskyldu Elfars heitins Jónssonar. Bæði Áslaug og Elfar voru virk í starfi körfunnar í Njarðvík og hér eru fulltrúar frá fjölskyldum þeirra sem afhenda bikarana í dag. Það má geta þess að þessir bikarar eru veittir leikmönnum sem hafa lokið grunnskóla.
Áslaugarbikarinn í ár hlaut Björk Gunnarsdóttir leikmaður í stúlkna- unglinga og meistaraflokki félagsins. Björk var leikstjórnandi beggja liða í vetur og átti virkilega gott ár. Hún er traustur leikmaður á báðum endum vallarins og á sannarlega bjarta framtíð fyrir höndum. Hún var Norðurlandameistari með U16 kvenna sl vor og lék þar stórt hlutverk og núna í maímánuði var hún í U18 landsliði kvenna sem hlaut bronsverðlaun á mótinu en þar var hún á yngra ári og stóð sig vel.
Elfarsbikarinn í ár hlaut Jón Arnór Sverrisson leikmaður í 11.- drengja, unglinga og meistaraflokki félagsins. Jón Arnór átti frábært keppnistímabil þar sem stendur upp úr mögnuð frammistaða hans í úrslitaleik Íslandsmóts 11.flokks er liðið varð Íslandsmeistari, en þar var hann með þrefalda tvennu: 15 stig, 15 fráköst og 16 stoðsendingar. Jón Arnór átti einnig frábæra leiki með unglingaflokki félagsins í bikar; gerði 29 stig gegn KR, 28 stig gegn ÍR og svo 19 stig í úrslitaleik gegn FSu en þar urðu drengirnir Bikarmeistarar. Kappinn kom svo inn í meistaraflokk félagsins um jólin og einnig var hann valinn í U18 ára landslið Íslands sem hlaut silfur á NM á dögunum en þar var hann á yngra ári og þótti standa sig vel.