Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Bjartsýnn á gott gengi Holtaskóla
Miðvikudagur 1. maí 2013 kl. 13:50

Bjartsýnn á gott gengi Holtaskóla

-Segir Theodór Sigurbergsson Skólahreystikappi

Holtaskóli hefur titil að verja í Skólahreysti þetta árið. Skólinn hefur reyndar unnið tvö ár í röð og nú verður met slegið komi þriðji sigurinn í hús. Gera má ráð fyrir hátt í fimm þúsund áhorfendum á keppninni sem fram fer í Laugardalshöll á morgun.

Theodór Sigurbergsson er einn af keppendum Holtaskóla og hann kveðst spenntur fyrir lokaátökunum. „Lokakeppnin leggst bara mjög vel í mig, stress og tilhlökkun í bland,“ segir Theodór sem hefur æft markvisst að undanförnu. „Ég hef æft markvisst og reynt að borða og hvílast vel. Ég vona að ég nái að bæta minn árangur því að ég tel mig eiga talsvert inni.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Alls eru 12 skólar í úrslitum en þar á meðal er einnig Myllubakkaskóli úr Reykjanesbæ „Keppnin verður örugglega hörð og jöfn því það er mikið af öflugum keppendum þetta árið, en ég er bjartsýnn á gott gengi Holtaskóla.“ Hann segir að gaman yrði að landa sigri þriðja árið í röð. „Liðsheildin er flott hjá okkur þetta árið og veit ég að Kolbrún, Ingibjörg og Gummi eru klár í slaginn. Þau eru búin að æfa vel og ég á von á bætingu frá þeim líka. Þess vegna er ég bjartsýnn á gott gengi okkar,“ segir Theodór sem er 16 ára gamall. Hann æfir fótbolta með Keflavík og handbolta með HKR. Hann var m.a. valinn handknattleiksmaður Reykjanesbæjar árin 2010 og 2012. Við lögðum fyrir hann nokkrar léttar spurningar.

Hvers vegna tekur þú þátt í Skólahreysti?

Holtaskóla hefur gengið vel í keppninni undanfarin ár og hafa íþróttakennararnir haldið vel utan um keppnina, þess vegna hefur skapast góð stemming innan skólans að taka þátt í skólahreysti.

Hver er eftirlætis íþróttamaðurinn þinn?

Ég held mikið upp á David Luiz hjá Chelsea en það er mitt lið í ensku deildinni.

Hvaða tónlist kemur þér í gírinn?
DMX er er rapparinn sem kemur mér í gírinn.

Hvað færðu þér að borða fyrir Skólahreysti?
Ég borða hafragraut og kjúklingasalat frá Langbest á keppnisdegi.

Áhugamál þín?
Áhugamál mín eru fótbolti og handbolti en ég fylgist vel með flestum íþróttum.

Hvernig tilfinning er það að vera í beinni útsendingu í Sjónvarpinu?
Það er bara góð tilfinning að vita að margir séu að horfa og skiptir þá máli að hafa einbeitinguna í lagi svo ég nái settu markmiði.