Bjarni Sigþór með fyrsta ás ferilsins
Bjarni Sigþór Sigurðsson úr Golfklúbbi Suðurnesja fór holu í höggi í gær á 18. holu Húsatóftavallar í Grindavík. Hann var þar við keppni ásamt hópi kylfinga sem teljast til betri kylfinga GS. Þetta er í fyrsta sinn sem Bjarni fer holu í höggi og í fyrsta sinn sem kylfingur fer holu í höggi á þessari braut en hún var opnuð fyrir um ári síðan.
Bjarni sló draumahögginu með 8-járni og stefndi boltinn allan tímann beint á pinna. Holustaðsetningin var krefjandi, efst á flötinni hægra megin og erfitt að koma boltanum nálægt holunni. Bjarni sló hins vegar ákveðið og nældi sér í sinn fyrsta ás á ferlinum.
Það er skiljanlega mikið stuð í hópnum að móti loknu. Hópurinn heldur árlega mót á Húsatóftavelli sem kallast Masterinn. Veittur er glæsilegur ljósgrænn jakki í verðlaun fyrir besta skor í höggleik. Það var enginn annar en Guðmundur Rúnar Hallgrímsson sem fór þar með sigur af hólmi og klæddist hann jakkanum með viðhöfn í gærkvöldi.
Guðmundur Rúnar í hinum glæsilega græna jakka sem veittur er í verðlaun fyrir sigur í Masternum hjá betri kylfingum GS.