Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Bjarni hættur með Njarðvík
Bjarni Jóhannsson sigurreifur eftir að Njarðvík tryggði sér deildarmeistaratitilinn í 2. deild karla í ár.
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
föstudaginn 23. september 2022 kl. 11:26

Bjarni hættur með Njarðvík

Bjarni Jóhannsson, hefur ákveðið að framlengja ekki samningi sínum við knattspyrnudeild Njarðvíkur en hann tók við þjálfun liðsins ásamt Hólmari Erni í nóvember 2020. Bjarni náði mögnuðum árangri með Njarðvíkurliðið í ár, ásamt teymi sínu, en liðið sigraði 2. deildina með 55 stig, skoraði 63 mörk og fékk aðeins 22 mörk á sig. Þá sigraði Njarðvíkurliðið einnig Lengjubikarinn í B-deild.

Á Facebook-síðu knattspyrnudeildar Njarðvíkur er Bjarna þakkað fyrir framlag sitt tii félagsins sem hefur vaxið mikið frá því að hann kom til klúbbsins. Bjarni var að ljúka sínu 34. ári í meistaraflokksþjálfun karla. Hann hóf þjálfarferilinn á heimaslóðum sínum með Þrótti Neskaupstað og hefur þjálfað Tindastól, Grindavík, Breiðablik, ÍBV, Fylki, Stjörnuna, KA og Vestra ásamt því að hafa verið aðstoðarlandsliðsþjálfari Íslands en hann hefur lyft öllum helstu titlum sem hægt er að vinna hér á landi.

Hólmar Örn á hliðarlínunni í leik hjá Njarðvík. VF-myndir: JPK

Bjarni og Hólmar Örn Rúnarsson hafa í sameiningu stýrt liði Njarðvíkur síðustu tvö tímabil með frábærum árangri. Það má gera ráð fyrir að Hólmar Örn verði áfram með Njarðvíkurliðið, sem leikur í Lengjudeildinni á næsta ári, en það mun væntanlega skýrast á næstu dögum og þá hvort hann verði einn eða fái nýjan meðreiðarsvein sér við hlið.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024