Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Birna og Barkus afgreiddu ÍS
Fimmtudagur 5. janúar 2006 kl. 10:31

Birna og Barkus afgreiddu ÍS

Birna Valgarðsdóttir gerði 29 stig í gær er Keflavík sigraði ÍS 65 – 83 í Iceland Express deild kvenna í körfuknattleik. Lakiste Barkus, sem fengin var til Keflavíkur í stað Resheu Bristol, gerði 28 stig í leiknum og tók 14 fráköst.

Keflavík hóf leikinn af krafti og var 15 – 33 yfir að loknum 1. leikhluta. Í öðrum leikhluta náðu Stúdínur fínni rispu og minnkuðu muninn niður í 10 stig en Keflavíkurkonur sýndu þá klærnar og juku muninn upp í 20 stig, 29 -49, fyrir leikhlé.

Stúdínur náðu enn að klóra í bakkann í þriðja leikhluta og minnka muninn úr 20 stigum niður í 14, 53 – 67. Íslandsmeistararnir héldu þó forystunni allt til leiksloka og höfðu sigur í íþróttahúsi Kennaraháskólans, 65 – 83.

Signý Hermannsdóttir gerði 18 stig fyrir ÍS og Njarðvíkingurinn Helga Jónasdóttir 13 ásamt því að taka 12 fráköst.

Sigurinn var mikilvægur fyrir Keflavík enda þurfa þær að hafa sig allar við ætli þær ekki að missa Grindavík og Hauka of langt fram úr sér en bæði liðin eiga leik til góða á Keflavík.

Tölfræði leiksins

VF-myndir/ JBÓ

 

 


 

 

 

 

 

 

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024