Birna með nærri helming stiga Keflavíkur í sigri á KR
Keflavík vann KR í Iceland Express deild kvenna í Toyota höllinni í Keflavík í kvöld. Lokatölur urðu 72-61 fyrir Íslandsmeistara Keflavíkur þar sem Birna Valgarðsdóttir skoraði nærri helming stiga liðsins en hún setti 29 stig og tók tíu fráköst.
Keflavík náði forystu strax í byrjun leiks og hélt henni allan leikinn að undanskildu einu skipti þegar KR komst yfir 38-39. Heimaliðið var með 21-12 forystu eftir fyrsta leikhluta, 34-30 eftir annan og í þriðja leikhluta voru gestirnir sterkir og virtust til alls líklegir þegar lítið gekk hjá Keflavík í sókninni. Í fjórða leikhluta tóku Íslandsmeistararnir hins vegar öll völd og juku forskotið sem náði hámarki 65-53 eða tólf stigum þegar Ingibjörg Vilbergsdóttir og Birna Valgarðsdóttir settu báðar niður þrista þegar um fimm mínútur voru til leiksloka. KR stúlkum sem spáð var 2. sæti í mótinu og voru drifnar áfram af Hildi Sigurðardóttur sem skoraði 18 stig og stjórnaði liði sínu í vörn og sókn, áttu ekkert svar við góðum leik Keflavíkurstúlkna í síðasta fjórðungnum.
Birna lék algert lykilhlutverk hjá meistaraliði Keflavíkur í þessum leik, í vörn og enn frekar í sókn þar sem hlutirnir gengu ekki alltaf upp hjá liðinu. Hún skoraði heil 29 stig og tók tíu fráköst auk þess að leika liðsmenn sína uppi í sókninni. Pálína Gunnlaugsdóttir var mjög traust að vanda og skoraði 13, Ingibjörg Elva Vilbergsdóttir var með tug stiga og Svava Ósk Stefánsdóttir gerði níu stig. Þessar fjórar báru uppi liðið og mynda gríðar sterkan kjarna í liðsheildinni sem ætti að geta staðið undir þeim væntingum sem til liðsins eru gerðar.
Grindavíkurstúlkur unnu nauman sigur á Val 46-44 og það stefnir í mjög skemmtilegt og jafnt mót hjá kvenfólkinu í vetur.