Birna er Íþróttamaður Reykjanesbæjar 2004
Birna Valgarðsdóttir, körfuknattleikskona úr Keflavík, er Íþróttamaður Reykjanesbæjar árið 2004. Hún var sæmd titlinum við hátíðlega athöfn í Ljónagryfjunni í Njarðvík í dag, gamlársdag.
Birna er vel að titlinum komin enda hefur hún verið einn af öflugustu leikmönnum landsins um árabil og hefur unnið ótal titla með liði sína ásamt því að hún jafnaði landsleikjamet Önnu Maríu Sveinsdóttur í leikjum gegn Englandi á milli jóla og nýárs.
Jóhann Rúnar Kristjánsson, borðtenniskappi og Ólympíufari, var í öðru sæti og Erla Dögg Haraldsdóttir var í því þriðja.
Á athöfninni voru allir Íslandsmeistarar bæjarins verðlaunaðir, en þeir voru um 180 talsins þetta árið.
VF-myndir/Þorgils Jónsson