Birkir Már Íslandsmeistari aðeins 13 ára
Keppnistímabilinu lauk með eftirminnilegum hætti hjá Sunddeild Keflavíkur á Sundmeistaramóti Íslands í kópavogi um síðustu helgi. Íris Edda Heimisdóttir varð áttfaldur Íslandsmeistari, hún sigraði í öllum sínum greinum í unglinga og fullorðinsflokki. Þetta hefur svo sannarlega verið glæsilegt tímabil hjá Írisi sem sett hefur aragrúa meta, orðið Norðurlandameistari, margfaldur Íslandsmeistari og þar að auki áunnið sér rétt á stærsta íþróttamót veraldar, Olympíuleikana.Eva Dís Heimisdóttir varð Íslandsmeistari í 100 metra skriðsundi með glæsilegu sundi þar sem hún bætti sinn fyrri árangur um eina sekúndu, Eva sannaði þarna svo um munaði að hún er búin að ná sínum fyrri styrk í sundíþróttinni og gott betur en það.Birkir Már Jónsson aðeins 13 ára að aldri sigraði með fáheyrðum yfirburðum í 1500 metra skriðsundi karla og bætti sinn fyrri árangur um tæpar 40 sekúndur, Birkir Már er ennþá í B - hóp sunddeildarinnar en færist upp í A - hóp í haust og verður fróðlegt að fylgjast með þessu mikla efni á komandi misserum. Pilta og stúlknasveitir Keflvíkinga sigruðu öll boðsund á mótinu en í Piltasveitinni syntu þeir Jón Gauti Jónsson, Birkir Már Jónsson, Guðlaugur Már Guðmundsson, Heiðar Hildiberg Aðalsteinsson, Guðgeir Arngrímsson, Hafþór Ægir Sigurjónsson og Páll Ágúst Gíslason en í stúlknasveitinni syntu þær Díana Ósk Halldórsdóttir, Erla Magnúsdóttir, Þóra Björg Sigurþórsdóttir, Berglind Þorsteinsdóttir og Jóhanna Marsibil Pálsdóttir.Lang flestir sundmenn félagsins voru í stórgóðri bætingu og fyrir utan gullverðlaunin sem deildin fékk á mótinu áunnust tugir silfur og bronsverðlauna.Það er svo sannarlega bjart yfir framtíðinni hjá sunddeildinni og fær hinn nýi þjálfari frá Kanada, Paul Meronen fjöldan allan af góðum og efnilegum sundmönnum til að moða úr.Ég vill að lokum nota tækifærið og þakka fyrir mig, ég hef starfað hjá Sunddeild Keflavíkur meira og minna síðastliðin 9 ár og hefur þetta verið gríðarlega skemmtilegur tími sem skilur mikið eftir sig. Ég kem til með að fylgjast með framgangi Sunddeildarinnar með miklum áhuga á komandi árum.Gangi ykkur vel. Líf og fjör.Fyrir hönd Sunddeildar Keflavíkur Eðvarð Þór Eðvarðsson, Yfirþjálfari.