Birgitta Haukdal skemmtir fyrir leik Keflavíkur og Grindavíkur á morgun
Keflavík og Grindavík mætast öðru sinni í úrslitaeinvígi liðanna í Intersport-deild karla í körfuknattleik á morgun og hefst leikurinn kl. 19:15. Körfuknattleiksdeild Keflavíkur hefur fengið Birgittu Haukdal til lið við sig og mun hún halda tónleika í íþróttahúsinu við Sunnubraut fyrir leikinn. Húsið opnar kl. 18:00 og munu tónleikar Birgittu hefjast kl. 18:30 og standa yfir í um 20 mínútur. Birgitta mun, ásamt félögum sínum, flytja nokkur vinsæl lög fyrir leikinn og síðan líklega eitt eða tvö til viðbótar í hálfleik. Miðaverð á leikinn verður óbreytt, það er að segja 800 kr. fyrir fullorðna, 16 ára og eldri, en 400 kr. fyrir börn á grunnskólaaldri. Má búast við troðfullu húsi þar sem Birgitta er án efa heitasta stjarnan í íslensku tónlistarlífi í dag og er fólki því bent á að mæta snemma til að ná góðum sætum. Auk Birgittu verður ýmislegt annað gert til skemmtunar t.d. munu stúlkur frá Fimleikadeild Keflavíkur taka þátt í fjörinu.
Það verður því ekki bara körfuboltafjör eins og það gerist best á Íslandi heldur einnig frábær tónlistarveisla og óhætt að segja að Keflvíkingar séu með þessu að gera frábæra úrslitakeppni enn betri.
Það verður því ekki bara körfuboltafjör eins og það gerist best á Íslandi heldur einnig frábær tónlistarveisla og óhætt að segja að Keflvíkingar séu með þessu að gera frábæra úrslitakeppni enn betri.