Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Bikarupphitun á Keflavíkurvelli
Mánudagur 17. september 2007 kl. 10:47

Bikarupphitun á Keflavíkurvelli

Lokaumferð Landsbankadeildar kvenna í knattspyrnu fer fram í kvöld og verður upphitun fyrir Bikarúrslitaleikinn um næstu helgi á Keflavíkurvelli. Keflavík tekur á móti KR kl. 17:30 á Keflavíkurvelli í dag en liðin mætast næsta laugardag í úrslitaleik VISA bikarkeppni kvenna á Laugardalsvelli. Fyrir leikinn í kvöld og á laugardag eru KR konur taldar mun sigurstranglegri.

 

Íslandsmeistarar Vals mæta Þór/KA og dugir þeim aðeins jafntefli í dag til þess að verja titilinn.

 

Sóknarmaðurinn Guðný Petrína Þórðardóttir verður ekki með Keflvíkingum í kvöld þar sem hún er enn fjarri góðu gamni vegna meiðsla. Hún stefnir þó að því að geta verið með í bikarleiknum á laugardag. Þá er Danka Padovac hvíld í kvöld þar sem hún verður í leikbanni á laugardag ef hún fær eitt gult spjald til viðbótar og því ekki tekin áhætta á því í dag. Beth Anna Ragdale verður að öllum líkindum ekki með í kvöld vegna meiðsla en hún verður í liðinu á laugardag og þá er markvörðurinn Dúfa Ásbjörnsdóttir frá vegna meiðsla en Jelena Petrovic mun verja markið í dag hjá Keflavík.

 

Það verður því á brattann að sækja í kvöld hjá Keflavíkurkonum þegar KR kemur í heimsókn en allt bendir til þess að Keflavík geti telft fram nokkuð sterkara liði gegn KR á laugardag þegar liðin mætast í bikarúrslitum.

 

Fyrir þessa síðustu umferð er það ljóst að Keflavík verður í 4. sæti deildarinnar því þær hafa þar 22 stig og geta hvorki náð Blikum að stigum í 3. sætinu né misst Stjörnuna fram úr sér sem er í 5. sæti með 18 stig.

 

VF-Mynd/ Úr safni - Guðný Petrína Þórðardóttir er enn fjarri góðu gamni sökum meiðsla.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024