Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Bikarupphitun - Sérfræðingar spá í spilin
Föstudagur 18. febrúar 2011 kl. 17:54

Bikarupphitun - Sérfræðingar spá í spilin

Við höldum áfram umfjöllun okkar um bikarúrslitaleikina sem fram fara á morgun í Laugardalshöll þar sem Keflvíkingar í kvennaleiknum mæta KR og í karlaleiknum munu Grindvíkingar einnig etja kappi við KR-inga. Við fengum Sverri Þór Sverrisson þjálfara Njarðvíkur í úrvalsdeild kvenna, Friðrik Stefánsson leikmann Njarðvíkur og Jóhann Þór Ólafsson þjálfara Grindavíkur í meistaraflokki kvenna til að spá í spilin fyrir morgundaginn. Kvennaleikurinn hefst klukkan 13:30 og Karlaleikurinn klukkan 16:00 og hvetjum við við körfuboltaáhugamenn til að mæta í höllina og í fyrramálið munum við heyra frá Teiti Örlygssyni og Önnu Maríu Sveinsdóttur.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Friðrik Erlendur Stefánsson leikmaður Njarðvíkur


Keflavík-KR

„Ég held að kvennaleikurinn verði hörkuleikur enda tvö af þremur sterkustu liðum landsins að mætast. Það verður gaman að sjá einvigi Margrétar Köru og Birnu Valgarðs í leiknum en ég hallast samt að sigri Keflavíkur ef Jacquline Adamschick og Bryndís Guðmundsdóttir eiga topp leik.“


Grindavík-KR

„KR eru að spila best allra liða í dag og held að þeir séu hungraðir í bikar eftir sárt tap á móti Teit Örlygssyni og Stjörnumönnum hér um árið. Bakverðir KR þeir Marcus og Pavel eru gríðarlega erfiðir en ef Grindavík finnur leið til að taka þá úr sínum leik þá er allt mögulegt, það myndi líka hjálpa ef gamla kempan Páll Axel Vilbergsson ætti toppleik í höllinni.“


Á að skella sér á leikinn?
„Nei ég mun láta mér nægja að horfa á leikina í sjónvarpinu“



Sverrir Þór Sverrisson þjálfari kvennaliðs Njarðvíkur


Keflavík-KR
„Þetta verður hörkuleikur tveggja sterkra liða sem eru skipuð mörgum góðum leikmönnum sem gætu ráðið úrslitum fyrir sín lið á laugardaginn. Ég spái því að Keflavík vinni leikinn með 5 stiga mun þar sem Jackie á eftir að reynast KR stúlkum erfið enda frábær leikmaður sem er alltaf á fullu á báðum endum vallarins. Það má samt alls ekki afskrifa KR því þær eru með reynslumikið lið og marga góða leikmenn eins og Margréti Köru sem gæti tekið leikinn í sínar hendur eins og hún hefur oft gert í vetur. En Keflavík hefur ekki unnið bikarinn í nokkur ár og ég held að það sé komið að því núna.“



KR-Grindavík
„Grindavík hefur verið í mikilli lægð að undanförnu á meðan KR hefur verið að spila mjög vel. Þannig að KR-ingar eru sigurstranglegri fyrirfram en nú reynir á Grindvíkinga að sýna að alvöru karakter í liðinu með því að koma brjálaðir til leiks og bikarúrslitaleikurinn gæti komið Grindvíkingum algjörlega í gang aftur eftir dapurt gengi undanfarið. Mín spá er að KR vinni leikinn með 10 stiga mun þar sem Pavel og Marcus Walker verða of stór biti fyrir Grindavík.“


Jóhann Þór Ólafsson þjálfari kvennaliðs Grindavíkur


Keflavík-KR
„Þetta verður fróðlegt. Keflavík vann góðan sigur í Hveragerði í síðasta leik á meðan að KR marði sigur á móti Haukum. Ég held hinsvegar að gengi í deild hafi ekki áhrif í svona leik, sérstaklega þegar tvö jöfn lið mætast.
Það sem skiptir máli fyrir Keflavík að mínu mati er að Birna Valgarðs nái að sýna sitt rétta andlit. Ef að hún er á pari líður öðrum leikmönnum eins og Pálínu og Bryndísi vel á vellinum. Jackie mun setja sín 25-30 stig og taka 10-15 fráköst. Ég hef ekki séð nýja leikmanninn en það verður gaman að sjá hvernig henni gengur að stýra leik Keflavíkur gegn Guðrúnu Gróu.
KR-ingum hefur gengið illa að halda stöðugleika í vetur. Þær hafa nánast verið að púsla saman liðinu í allan vetur. Kara hefur verið að spila mjög vel í vetur og henni virðist líða mjög vel þegar að mikið liggur við eins og sást á móti Hamar í undanúrslitum. Kaninn hefur verið að glíma við einhver meiðsli og er spurningamerki. En ég held að lykill fyrir KR sé að ná upp þessari góðu liðsvörn sem að liðið var með í fyrra.“

Jóhann spáir KR sigri 63-70 eftir jafnan leik þar sem hann segir hörku og baráttu eiga eftir að standa upp úr á kostnað gæða leiksins.


Grindavík-KR
„Sama má segja um þennan leik, gengi liða í deild á ekki eftir að skipta máli hér, kannski er þetta bara óskhyggja.
Það sem skiptir máli hjá mínum mönnum er að þeir þurfa að vera snöggir til baka. KR-ingar skora mikið upp úr hröðum sóknum og ef að mínir menn ná að komast til baka og spila 5 á 5 á hálfum velli þá eru þeir í fínum málum. Á sama tíma þurfa mínir menn að ná flæði í sóknina. Boltinn fékk ekki að flæða nóg í síðasta leik. Annars er þetta bara spuring fyrir mína menn að rífa sig upp á rassgatinu og gera þetta eins og menn.
KR-ingar þurfa að fá góðan leik frá Pavel, hann er algjör lykill í þeirra leik. Þeir þurfa líka sín stig úr hröðum sóknum til þess að vinna.“

„Ég spái mínum mönnum sigri í þessum leik 93-78 þar sem að Lalli bróðir og Patinella eiga eftir að standa upp úr. Annars veit ég ekkert hvað ég er að segja. Ég vona bara að þetta verði góður dagur sem endar vel.“