Bikarsigur UMFN gegn KR: Hafa enn ekki svarað í deildinni
Njarðvík og KR hafa löngum eldað saman grátt silfur og það var ekki fyrr en síðasta sunnudag að Njarðvíkingar náðu að jafna hlut sinn nokkuð gegn KR. Eftirminnilegar eru rimmur liðanna um Íslandsmeistaratitilinn á síðustu leiktíð þar sem KR hafði betur og hampaði þeim stóra. Í þeirri rimmu áttu Njarðvíkingar heimaleikjaréttinn, unnu fyrstu viðureign liðanna en KR vann næstu þrjá leiki með naumindum og ætlaði allt um koll að keyra í Vesturbænum þegar Fannar Ólafsson, fyrirliði KR, hóf þann stóra á loft.
Þrír sigrar KR í röð í úrslitarimmunni gegn Njarðvík á síðustu leiktíð hefðu flestir haldið að væru nægilegt veganesti fyrir Njarðvíkinga til að mæta dýrvitlausir í Vesturbæinn á þessari leiktíð þegar liðin mættust í sínum fyrsta stórleik síðan á vormánuðum 2007. Svo reyndist ekki vera þar sem leikurinn sjálfur var nokkuð dapur en KR-ingar lönduðu ótrúlegum sigri með regnboga þriggja stiga körfu frá landsliðsmanninum Helga Magnússyni á lokasekúndu leiksins og enn og aftur sátu Njarðvíkingar eftir með sárt ennið.
Arnar Kárason fyrrum leikmaður KR og núverandi starfsmaður Lýsingar sá svo um að veita Njarðvíkingum enn eitt tækifæri til þess að ná fram hefndum gegn KR er hann dró liðin saman í 8 liða úrslit Lýsingarbikarsins. Leikurinn fór fram í Ljónagryfjunni um síðustu helgi þar sem Njarðvíkingar höfðu 106-90 yfirburðasigur á gestum sínum og fögnuðu þeir vel og innilega í leikslok enda langþráður sigur á KR í höfn.
Athygli vekur að það telst vart til tíðinda hin síðustu ár að leggja KR að velli í bikarkeppninni þar sem KR hefur ekki orðið bikarmeistari síðan 1991 en Njarðvíkingar urðu síðast bikarmeistarar árið 2005 og hafa fjórum sinnum orðið bikarmeistarar eftir að KR-ingar fögnuðu sínum síðasta bikarmeistaratitli.
Þó er KR sigursælasta lið bikarkeppninnar hérlendis þar sem þeir hafa alls 9 sinnum orðið bikarmeistarar, árin 1970, 71, 72, 73, 74, 77, 79, 84, 91. Njarðvíkingar standa þeim þó ekki fjarri með 8 bikarmeistaratitla á árunm 1987, 88, 89, 90, 92, 99, 2002 og 2005. Takist Njarðvíkingum að verða Lýsingarbikarmeistarar í ár jafna þeir bikarfjölda KR.
Njarðvíkingum tókst að svara KR-ingum í síðasta leik með því að slá þá út úr bikarkeppninni en þeim hefur ekki enn tekist að svara fyrir sig á Íslandsmótinu. Seinni leikur liðanna á Íslandsmótinu fer fram í Ljónagryfjunni í Njarðvík föstudaginn 8. febrúar næstkomandi og þá verður fróðlegt að sjá hvort Njarðvíkingum takist að losna undan grettistaki KR á Íslandsmótinu.
Hér að neðan gefur að líta siðustu viðureignir liðanna:
Leiktíðin 2006-2007, úrslitakeppnin:
9. apríl, 2007 UMFN 99-78 KR
12. apríl, 2007, KR 82-76 UMFN
14. apríl, 2007, UMFN 92-96 KR
16. apríl, 2007, KR 83-81 UMFN (KR Íslandsmeistari)
Leiktíðin 2007-2008
Deildarkeppnin
1. nóvember, 2007, DHL-Höllin, KR 82-81 UMFN
Bikarkeppnin
13. janúar, 2008, UMFN 106-90 KR