Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Bikarsigur Keflavíkur: Verðskuldaður stórsigur
Laugardagur 2. október 2004 kl. 20:41

Bikarsigur Keflavíkur: Verðskuldaður stórsigur

Keflvíkingar eru Bikarmeistarar KSÍ 2004 eftir frækilegar 3-0 sigur á KA í úrslitaleik.

Þetta er í þriðja skiptið sem Keflavík hampar þessum titli, en þeir unnu líka 1975 og 1997.

Fyrir leikinn í dag voru Keflvíkingar taldir sigurstranglegri, en KA menn höfðu á leið sinni í bikarinn slegið út bæði FH og ÍBV, gull- og silfurlið Íslandsmótsins.

Keflvíkingar mættu vel á völlinn til að styðja sína menn þar sem Stuðningsmannasveitin stjórnaði hvatningarsöngvum af mikilli röggsemi.

KA-menn mættu afar grimmir til leiks og sóttu meira á byrjunarkaflanum. Þeir áttu fyrsta færið þegar varnarmaðurinn danski, Ronny Hartvig, skallaði framhjá úr vítateig Keflvíkinga. Færið kom strax á 2. mínútu eftir góða aukaspyrnu Dean Martins.

Strax eftir það náðu Keflvíkingar algerum yfirburðum í leiknum og var þess ekki langt að bíða að þeir létu vita af sér.

Guðmundur Steinarsson átti fyrsta færi Keflvíkinga á 8. mín þegar hann skaut yfir markið eftir að hafa fengið stungusendingu inn fyrir vörnina. Þórarinn Kristjánsson var á ferð skömmu síðar þegar hann skaut frá vítateigslínu, en Sándor Matus, markvörður KA átti ekki í vandræðum með að verja.

Afmælisbarnið Scott Ramsey gerði oft usla í sókn KA og það var einmitt hann sem var lykilmaður í fyrsta marki leiksins. Á 10. mín óð hann upp völlinn eins og honum er einum lagið og komst inn í teig þar sem Hartvig brá fyrir hann fæti. Vítaspyrna, einföld ákvörðun fyrir Kristinn Jakobsson, dómara.

Þórarinn Kristjánsson var ekki í vandræðum með að afgreiða vítaspyrnuna, öruggt skot neðst í hægra hornið. Staðan var 1-0 og mikill uppgangur í leik Keflvíkinga.

Haraldur Guðmundsson skaut í varnarmann KA og yfir á 12. mín, en Hreinn Hringsson svaraði á hinum endanum þegar hann skallaði naumlega yfir eftir sendingu frá Martin.

Á 26. mínútu juku Keflvíkingar muninn eftir glæsilega útfærða sókn. Guðmundur Steinarsson fékk boltann út á vinstri kanti, gaf fyrir á Zoran Ljubicic sem gaf frábæra hælsendingu á Hólmar Rúnarsson sem kom askvaðandi inn í teiginn. Hann sendi boltann aftur fyrir markið þar sem Þórarinn, hver annar, kom á hlaupum og renndi knettinum inn á fjærstöng.

Staðan var orðin 2-0 og róðurinn orðinn ansi hreint þungur fyrir Norðanmenn.

Haukur Ingvar Sigurbergsson fékk upplagt færi á 28. mín þegar hann fékk fyrirgjöf inn í teiginn en skot hans fór langt yfir markið.

KA-menn voru heppnir að sleppa inn í hálfleik tveimur mörkum undir þar sem Þórarinn fékk færi á þrennunni. Hann fékk boltann eftir að Matus varði skot Guðmundar en skaut í fjærstöngina og útaf.

Rétt áður en flautað var til hálfleiks varði Magnús Þormar í marki Keflavíkur skot frá Pálma Rafni Pálmasyni og var það í fyrsta skipti sem Magnús þurfti að láta til sín taka.

Í seinni hálfleik var aldrei spurning hvoru megin bikarinn lenti því Keflvíkingar ráðu lögum og lofum. KA voru heppnir að fá ekki á sig miklu fleiri mörk þar sem Matus varði hvað eftir annað. Eftir því sem Norðanmenn færðu sig framar á völlinn fengu Keflvíkingar mörg færi til að bæta við mörkum.

Matus varði frá Ramsey sem var kominn einn inn fyrir á 66. mín og fimm mínútum síðar var hann svell kaldur þegar Þórarinn slapp einn í gegnum vörnina. Hann beið rólegur átekta og stökk svo á boltann eins og köttur þegar skotið reið af.

Ekkert gekk í sóknarleik KA þar sem varnarmenn Keflavíkur sáu við öllum þeirra tilraunum. Það var svo hlutskipti Harðar Sveinssonar að gera út um leikinn með þriðja markinu þegar 90 mínútur voru liðnar, en hann hafði komið inn á sem varamaður skömmu áður. Hörður fékk stungusendingu og fór með boltann inn í teig þar sem hann lék á einn varnarmann og afgreiddi knöttinn með þrumuskoti, óverjandi fyrir Matus.

Keflvíkingar fögnuðu markinu ógurlega og urðu nokkrar tafir á leiknum þar sem þeir fögnuðu á hliðarlínunni með stuðningsmönnum sínum.

Skömmu síðar var leikurinn flautaður af, en Keflvíkingarnir í stúkunni vissu löngu áður í hvað stefndi og sungu sigursöngva.

Zoran Daníel Ljubicic, fyrirliði, lyfti bikarnum hátt á loft við miklar undirtektir stuðningsmann og var fagnað á vellinum í dágóða stund. Hann sagði tilfinninguna einstaka. "Þetta er æðislegt, en það er mjög erfitt að lýsa þessu. Fyrri hálfleikur var stórkostlegur hjá okkur þar sem við yfirspiluðum þá alveg. Í seinni hálfleik spiluðum við líka frábærlega og aginn í liðinu var hreint stórkostlegur. það var ekkert stress í gangi!"

Þjálfarinn, Milan Stefán Jankovic, var orða vant í leikslok. "ÉG á ekki orð.þetta er fallegasta stund sem ég hef upplifað á mínum 30 ára fótboltaferli. Þetta er búinn að vera draumur minn í 10 ár að vinna titil hér á Íslandi." Milan bætti því við að lokum að hver einasti leikmaður hafi staðið sig vel í dag. "Við sýndum að við erum með gott lið og við eigum þetta skilið."

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024