Bikarmeistaratitlar Suðurnesjaliðanna
Nú er bikarvika Körfuknattleikssambands Íslands runnin upp og því við hæfi að rifja upp árangur Suðurnesjaliðanna í gegnum tíðina en það eru talsverðar líkur á að það bætist í safnið í þessari viku.
Keflvíkingar eiga möguleika á að vinna tvöfalt í ár því bæði karla- og kvennalið Keflavíkur eru í pottinum. Í undanúrslitum kvenna eru Grindavík, Keflavík og Njarðvík, þrjú af fjórum liðanna koma frá Suðurnesjum, en hvorki Grindavík né Njarðvík náðu í undanúrslit karla, þar er Keflavík eina Suðurnesjaliðið.
Kvennalið Keflavíkur ber af í þeirri upptalningu og er langsigursælast af Suðurnesjaliðunum með fimmtán titla í heildina, þann síðasta árið 2018. Grindvíkingar hafa unnið tvo (2008, 2015) og Njarðvík einn (2012).
Næstflesta titla Suðurnesjaliðanna hefur karlalið Njarðvíkur unnið en þeir eru sigursælastir karlaliðanna, með alls níu bikartitla, og þeir komu síðast með bikarinn til Suðurnesja, það var árið 2021. Keflvíkingar hafa unnið sex bikartitla, síðast árið 2012, og Grindvíkingar fimm, þann síðasta 2014.