Bikarkeppni KSÍ: Keflavík áfram eftir sigur á Þrótti
Keflavík komst í 8-liða úrslit bikarkeppni KSÍ með sigri á Þrótti á Valbjarnarvelli í gærkvöldi, 0-1. Mark Keflvíkinga skoraði Sigurbjörn Hafþórsson á 12. mínútu, en þetta var fyrsti leikur hans fyrir félagið eftir að hann kom frá KS fyrir tímabilið.
Leikurinn var ekki mikið fyrir augað svo ekki sé fastara að orði kveðið, en Keflvíkingar voru mjög bitlausir í sóknaraðgerðum ef undan eru skilin örfá hlaup. Vörnin stóð hins vegar fyrir sínu þrátt fyrir að þar væri skarð fyrir skildi að Guðmundur Mete var ekki með vegan meiðsla og Guðjón Árni Antoníusson fór af velli í fyrri hálfleik eftir hressilega tæklingu. Í stað Guðjóns kom annar ungur og efnilegur leikmaður, Garðar Eðvaldsson, sem stóð sig vel í leiknum.
Eftir markið heyrði lítið til tíðinda í leiknum þar sem hvorugt lið var að skapa sér nokkur alvöru færi. Það var ekki fyrr en á síðustu mínútum leiksins að Þróttarar settu mikla pressu á mark Keflvíkinga.
Nokkrum sinnum munaði mjóu en hættunni var bægt frá.
Hið spræka lið Keflvíkinga var ekki að finna sig í leiknum en Guðmundur Steinarsson, leiðkmaður Keflvíkinga sagði eftir leikinn að þeir hefðu ekki verið að leika vel. „ Við gerðum það sem þurfti til að vinna leikinn, en sennilega ekki mikið meira Svo voru vallaraðstæður ekki sem bestar, en þetta hafðist.“
VF-mynd/Þorgils - Sigurbjörn fagnar marki sínu