Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Mánudagur 12. janúar 2004 kl. 15:35

Bikarkeppni KKÍ og Lýsingar: Suðurnesjaslagur í undanúrslitum karla

Fyrr í dag var dregið um hvaða lið mætast í undanúrslitum Bikarkeppni KKÍ og Lýsingar í karla- og kvennaflokki. Stóru Suðurnesjaliðin voru öll í pottinum í karlaflokki, en Keflavík er eitt eftir af kvennaliðunum.

Þannig fór að bikarmeistarar Keflavíkur og Grindavík, topplið Intersport-deildarinnar, munu eigast við í öðrum karlaleiknum á meðan Njarðvík mætir Snæfelli í hinum. Óhætt er að lofa skemmtilegum og spennandi leikjum þar sem liðin fjögur hafa öll verið að spila mjög vel í vetur og skipa fjögur efstu sætin í deildinni um þessar mundir.

Í kvennaflokki verður sannkallaður stórleikur þar sem meistarar Keflvíkinga mæta bikarmeisturunum úr ÍS sem einnig eru efstar í 1. deild kvenna. ÍS hefur unnið báðar viðureignir liðanna í deildinni, en ekki er spurt að slíku þegar komið er út á gólfið í bikarleikjum. Í hinum undanúrslitaleiknum mætast KR og Haukar, en KR lagði Grindavík og Haukar sigruðu Njarðvík á leið sinni í undanúrslitin.

Leikirnir munu fara fram um næstu helgi. Karlaleikirnir á laugardag en kvennaleikirnir á sunnudag.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024