Bikarkeppni KKÍ: Keflavík, Njarðvík og Grindavík vinna sína leiki í karlaflokki, Njarðvík áfram í kvennaflokki
Karlaflokkur
ÍR-GRINDAVÍK
Grindavík vann ÍR með 14 stiga mun í Seljaskóla í dag 61-75. Heimamenn voru með eins stigs forystu eftir fyrsta fjórðung, en þá tóku Grindvíkingar völdin og unnu verðskuldaðan sigur að lokum.
Stigahæstir Grindvíkinga voru, sem fyrr, Darrel Lewis með 18 stig, Guðmundur Bragason skoraði 14 og varði heil 6 skot. Daniel Trammel kom næstur með 13 stig og 14 fráköst.
Eugene Christopher var atkvæðamestur ÍR-inga með 20 stig og Ómar Örn Sævarsson skoraði 14 stig og tók jafnmörg fráköst.
Hér má finna tölfræði leiksins
ÞÓR-KEFLAVÍK
Keflvíkingar unnu sannfærandi sigur á Þór frá Þorlákshöfn á heimavelli þeirra síðarnefndu, 77-93. Keflvíkingar höfðu forystu allan leikinn.
Stigahæstir Keflvíkinga voru Magnús Þór Gunnarsson, sem skoraði 24 stig og Nick Bradford skoraði 20 stig og tók 15 fráköst.
Leon Brisport var allt í öllu í liði Þórsara og skoraði 37 stig og tók 18 fráköst.
Hér má finna tölfræði leiksins
HÖTTUR-NJARÐVÍK
Njarðvík vann auðveldan sigur á Hetti, eins og fyrirfram var búist við, 82-111. Njarðvíkingar komu einungis með átta menn til leiks, en Friðrik Ragnarsson, þjálfari reimaði á sig gömlu skóna og lék með í dag. Leikurinn var í öruggum höndum allan tímann og Friðrik gat leyft sér að hvíla lykilmenn og allir fengu að spila. Því miður hafði engin tölfræði borist úr þessum leik þegar þessi frétt er skrifuð.
Þannig eru stóru Suðurnesjaliðin öll komin áfram í 8-liða úrslitin og munu þar mæta Fjölni, Tindastóli, Snæfelli, Haukum og Hamri, sem vann Reyni frá Sandgerði með 105 stigum gegn 69.
Kvennaflokkur
KFÍ-NJARÐVÍK
Njarðvík vann tæpan sigur á KFÍ í dag 51-55. Munurinn endurspeglar ekki beint stöðu liðanna í deildakeppninni, en Njarðvíkurstúlkur áttu erfiðan leik gegn Keflvíkingum í 1. deildinni kvöldið áður sem gæti hafa setið í þeim. Tölfræði hefur ekki borist úr þessum leik.