Karlakór Kef kertatónleikar
Karlakór Kef kertatónleikar

Íþróttir

Fimmtudagur 18. desember 2003 kl. 21:29

Bikarkeppni Evrópu: Keflavík tapar í mögnuðum leik. Lendir í 3. sæti

Keflavík tapaði fyrir stundu gegn Madeira í Bikarkeppni Evrópu. Lokastaðanvar 108-107.

Eftir að hafa saxað á forystuna sem Madeira náði í byrjun leiks, missti Keflavík þá of langt fram úr sér undir lok fyrri hálfleiks og staðan var 58-46. Keflvíkingar hafa ekki verið að spila vel og virkað mistækir í sókninni. Heimamenn eru hins vegar að leika vel og sérstaklega nýta þeir færin sín vel, og eru að hitta mjög vel úr 3ja stig skotum sínum. Samkvæmt keflavik.is kemur það til vegna þess að Keflvíkingar eru ekki að spila nógu grimman varnarleik.

Í seinni hálfleik komu Keflvíkingar firna öflugir til leiks og komust yfir, 67-68 eftir 9-22 kafla. eftir það var leikurinn hnífjafn og einkenndist af mikilli baráttu í lok 3. leikhluta höfðu Keflvíkingar nauma forystu, 77-78.

Spennan hélt áfram í síðasta leikhluta og allt var í járnum sem fyrr. Magnús Þór fór af velli með fimm villur um miðjan fjórðunginn. Keflvíkingar náðu 3 stiga forystu, 89-92, en þá fékk Jón Norðdal sína fimmtu villu og kom ekki meira við sögu. Leikurinn var á suðupunkti og Madeiringar jöfnuðu 94-94. Þá tók við slæmur kafli Keflavíkinga og Heimamenn komust fimm stigum yfir, 99-94, þegar rúmar þrjár mínútur voru til leiksloka. Þá tóku Keflvíkingar aldeilis við sér og komust yfir á ný, 99-101, og tvær mínútur til leiksloka. Nick Bradford og Derrick Allen fóru hamförum á þessum kafla. þegar 30 sekúndur voru eftir var staðan 106-106 og spennan í algleymingi. á síðustu sekúndu var brotið á Allen í skoti en ekkert dæmt og Madeira vann 108-107.

Falur Harðarson sagði sína menn vera mjög svekkta með að hafa ekki fengið víti undir lokin. „Dómararnir guggnuðu bara undir lokin. Þetta var ekkert annað en villa. Annars get ég ekki verið annað en ánægður með spilið hjá strákunum, sérstaklega í seinni hálfleik.“ Aðspurður sagði Falur að Nick Bradford hafi leikið sérlega vel í kvöld þrátt fyrir að hafa spilað í annari stöðu en venjulega.

Bradford var stigahæstur Keflvíkinga með 38 stig, Derrick Allen var með 28 stig og Jón Norðdal með 17.

Marcos var stigahæstur Madeira með 23 stig. Næstir voru Leeks með 21 stig, Termens með 19 stig og Johnston með 17 stig og 11 fráköst.

Leikur Ovarense og Toulon fór 77-80 fyrir Frakkana sem ýttu Keflavík niður í 3. sæti riðilsins og munu þeir því mæta Dijon í 8-liða úrslitum. Dijon mun hafa heimavallarréttinn, en það lið sem fyrr vinnur tvo leiki kemst áfram í undanúrslit Vesturdeildarinnar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024