Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Bikarinn: Leikurinn í Röstinni fer á spjöld sögunnar
Laugardagur 18. janúar 2014 kl. 14:12

Bikarinn: Leikurinn í Röstinni fer á spjöld sögunnar

Þingmaðurinn og Grindvíkingurinn Páll Valur Björnsson fylgist vel með í boltanum og þá sérstaklega með sínum mönnum í körfunni. Dóttir hans Ólöf Helga lék bæði með uppeldisfélagi sínu Grindavík og síðar með Njarðvík um skeið, en bæði félög eru honum því kær. Við fengum Pál til þess að rýna í leikina sem eru framundan í 8-liða úrlslitum karla í körfubolta en þar mætast annars vegar Grindavík og Njarðvík og svo ÍR og Keflavík-B.


„Hvað varðar leik ÍR og Keflavík-B þá held ég að þetta verði hörkuleikur en tel að ÍR-ingar undir stjórn hins yndislega Njarðvíkings Örvars Kristjánssonar sem án nokkur efa er fyndnasti þjálfari landsins, hafi sigur að lokum. Það skildi samt ekki vanmeta gömlu brýnin úr Keflavík sem er algerir snillingar þegar kemur að körfubolta, leikmenn með gríðarlega reynslu sem þekkja öll trixin í bókinni. Með þeim spilar Gunnar nokkur Einarsson einn flottasti íþróttamaður sem Suðurnesin hafa alið af sér, leikmaður sem að mínum dómi myndi vera byrjunarliðsmaður í hvaða úrvalsdeildarliði sem er á Íslandi. Þetta verður mikil skemmtun fyrir áhorfendur en ég held að Örvar og félagar hafi þetta að lokum.“

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Leikurinn fer á spjöld sögunnar

„Leikur Grindavíkur og Njarðvíkur í Röstinni verður síðan leikur sem fer á spjöld sögunnar, það er einhvern veginn skrifað í skýin. Að sjálfsögðu tel ég að mínir menn í Grindavík vinni þennan leik á okkar heimavelli. Það er samt deginum ljósara að til þess að það náist verða allir lykilmenn liðsins að eiga toppleik og einnig þeir sem leysa þá af hólmi. Grindarvíkurliðið er skipað frábærum leikmönnum sem á góðum degi eru ósigrandi. Síðan eru þeir með besta þjálfarann á landinu, Sverrir Þór Sverrisson er stórkostlegur þjálfari og drengurinn er fæddur sigurvegari, ferill hans sem þjálfari og áður sem leikmaður segir allt sem segja þarf. En þessi leikur verður jafn og munu úrslit ekki ráðast fyrr en á lokasekúndunum einfaldlega vegna þess að Njarðvíkurliðið er einnig skipað frábærum leikmönnum sem stjórnað er af mínum gamla góða vinnufélaga úr Njarðvíkurskóla, Einari Árna Jóhannssyni. Njarðvíkingar tóku þá ákvörðun fyrir nokkrum árum að byggja liðið upp á sínum eigin strákum undir stjórn Einars Árna sem er einstakur körfuboltaþjálfari og það er heldur betur að skila sér. Það er unun að fylgjast með þessum ungu strákum springa út og verða að alvöruleikmönnum í deild hinna bestu og þessi ákvörðun ásamt ótrúlega flottu fólki sem heldur utan starfið í Njarðvík á eftir að koma Njarðvíkurliðinu aftur á toppinn. Ég ber sterkar taugar til Njarðvíkinga eftir að hafa starfað einn vetur í Njarðvíkurskóla á sama tíma og dóttir mín Ólöf Helga spilaði með sigursælu kvennaliði félagsins þar sem ég fékk að kynnast þessu frábæra fólki og félagi. Þetta eru liðin sem maður vonaði að færu í Höllina og spiluðu úrslitaleikinn en eins og sagði áður þá tel ég að mínir menn vinni þennan leik þó það verði tæpt.“