Bikarinn: Gaman að sjá nýja Kanann í stórum leik
Stórskyttan Kristján Sigurðsson, stundum kallaður Byssan, stígur síðastur spámanna á stokk fyrir bikarleiki karla í 8-liða úrslitum. Þar fara fyrrum félagar Krsitjáns í Njarðvík til Grindavíkur og berjast um sæti í undanúrslitum. Kristján telur að þeir grænu sigri í spennandi leik. Eins fengum við Kristján til þess að spá fyrir um úrslit leiks ÍR og Keflavíkur-B sem fram fer á þriðjudag.
Njarðvík - Grindavík
„Ég ætla að spá eins og ég vona að þetta verði, það er að leikurinn endi með Njarðvíkursigri. Nýr kani hjá Njarðvík og það verður gaman að sjá hvernig hann kemur út í svona stórum leik eins og þessum. Þetta verður hörkuleikur eins og alltaf þegar þessi lið mætast enda tvö mjög góð lið og undanúrslit í húfi.“
Keflavík B - ÍR
„Ég spái öruggum ÍR sigri og býst ekki við óvæntum úrslitum. ÍR hefur styrkst mikið með komu Nigel Moore og var það sterkur leikur hjá Örvari að pikka hann upp, það var eitthvað sem ég beið eftir að myndi gerast þegar hann fór frá Njarðvík. ÍR verður of stór biti fyrir gömlu kempurnar og spái ég um það bil 20 stiga sigri.“