Bikarhelgin nálgast: Jón og Ágúst bíða spenntir
Þjálfarar og fyrirliðar ásamt nokkrum öðrum leikmönnum bikarliðanna sem leika til úrslita í Lýsingarbikarkeppninni í körfuknattleik á laugardag komu saman á blaðamannafundi í dag í húsi Lýsingar í Reykavík. Í kvennaflokki mætast Keflavík og Haukar en í karlaflokki mætast ÍR og Hamar/Selfoss.
Jón Halldór Eðvaldsson, þjálfari Keflavíkurkvenna, sagði á fundinum að þetta væri í fyrsta skipti sem hann léki til bikarúrslita í meistaraflokki sem og aðstoðarþjálfari hans, Agnar Mar Gunnarsson. Af því tilefni væri mikil spenna og eftirvænting í herbúðum Keflavíkur fyrir leikinn.
Ágúst Björgvinsson, þjálfari Hauka, var ánægður að sjá að nú í fyrsta sinn í 10 ár í bikarkeppninni mættust tvö efstu og bestu lið landsins í bikarúrslitum og að spennan væri ekki síðri í herbúðum Hauka.
VF-mynd/ Jón Björn Ólafsson: Birna Valgarðsdóttir fyrirliði Keflavíkur og Helena Sverrisdóttir fyrirliði Hauka halda Lýsingarbikarnum á milli sín en þær verða í eldlínunni á laugardag. Kvennaleikurinn hefst kl. 14:00.