Bikarhelgi: Allir vilja í Höllina
Undanúrslitin í Lýsingarbikarkeppni karla og kvenna í körfuknattleik fara fram um helgina. Karla- og kvennalið Grindavíkur og Keflavíkur leika til undanúrslita en karlalið Grindavíkur á titil að verja og Grindavíkurkonur eiga harma að hefna. Í karlaflokki í fyrra léku Grindavík og Keflavík til úrslita þar sem Grindvíkingar fóru með sigur af hólmi 93-78 þar sem þeir gulu settu upp þriggja stiga skotsýningu. Helgi Jónas Guðfinnsson gerði 23 stig í þeim leik en hann hefur lagt skóna á hilluna. Í kvennaflokki léku Grindavík og ÍS til úrslita þar sem Stúdínur unnu góðan vinnusigur á Grindavík. Á sunnudag verða þrír undanúrslitaleikir þar sem Keflavík mætir Hamri/Selfoss í Hveragerði og Grindavík tekur á móti ÍR í karlaflokki á sunnudag kl. 19:15. Í kvennaflokki mætast Grindavík og Haukar á sunnudag kl. 17:00 í Röstinni en Keflavík mætir Hamri í kvennaflokki í Sláturhúsinu á mánudag kl. 19:15. Víkurfréttir tóku tal af þjálfurum liðanna sem allir ætla sér mikið í þessari keppni.
Unndór Sigurðsson, þjálfari Grindavíkurkvenna
Ég hef fulla trú á því að við getum lagt Hauka að velli. Keflavík, Haukar og Grindavík eru svipuð að styrkleika þó sigrarnir hafi verið að detta þeim í vil fyrir áramót. Við höfum verið að vinna vel í okkar málum og erum fullfærar um sigur. Þetta veltur allt á því hvernig leikmenn koma stemmdir og það verða allir að vera tilbúnir til þess að leggja sig fram. Það verður varnarleikurinn sem mun skipta sköpum.
Jón Halldór Eðvaldsson, þjálfari Keflavíkurkvenna
Það er ekkert annað í boði en sigur gegn Hamri. Bikarleikur er bikarleikur og ef þú mætir ekki með rétt hugarfar þá ert þú dottinn út úr keppninni. Þetta er ekki flókið. Það verður engin miskunn gegn Hamri því við erum ekki í góðgerðarstarfsemi og við munum leggja okkur 100% fram allan tímann. Dampurinn datt úr okkar liði eftir sigurinn á Haukum rétt fyrir áramót en þetta er allt að koma hjá okkur. Mómentið er með Grindavík þessa stundina og ég held að Grindavík vinni Hauka í hinum undanúrslitaleiknum og við fáum Suðurnesjaslag í Höllinni.
Friðrik Ragnarsson, þjálfari Grindavíkur
Við erum búnir að vera í krísu og það hefur gengið illa hjá okkur. Við höfum verið að tapa leikjum undir lokin en nú erum við loks komnir á sigurbraut. Það getur verið erfitt að komast út úr svona krísum því menn fara að hugsa of mikið um að þeir geti tapað leiknum. Leikurinn gegn ÍR verður gríðarlega erfiður en við ætlum okkur áfram og eigum titil að verja. Calvin Clemmons hefur gefið okkur aukið vægi inni í teig og bakverðirnir eru að koma til og hér vilja menn ekkert annað en að komast í Höllina.
Sigurður Ingimundarson, þjálfari Keflavíkur
Við klikkuðum svakalega í Höllinni í fyrra en núna erum við stemmdir og við verðum að einbeita okkur í þessum leik. Hamar/Selfoss tapar ekki mörgum leikjum heima og þeir hafa verið að vinna fín lið að undanförnu. Fyrirfram má ætla að þetta verði hörkuleikur. Við erum lítið uppteknir af George Byrd en hann hefur gert góða hluti fyrir þá, hann hefur sína galla kallinn og við munum hamra á þeim. Ég heimta það að reynsla minna leikmanna vegi þungt í þessum leik. Við höfum verið að spila fremur máttleysislega í undanförnum leikjum og nú er þeim kafla bara lokið. Það er ekki nóg að segja að við þurfum að spila vel heldur þurfum við að leggja okkur alla fram og vera bjartsýnir.