Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Biðin á enda í Grindavík!
Sunnudagur 24. febrúar 2008 kl. 16:32

Biðin á enda í Grindavík!

Grindvíkingar urðu í dag í fyrsta sinn í sögu félagsins bikarmeistarar í körfuknattleik í kvennaflokki með 77-67 sigri á Haukum í úrslitaleik Lýsingarbikarkeppninnar sem fram fór í Laugardalshöll. Þær Tiffany Roberson, Joanna Skiba og Petrúnella Skúladóttir fóru hreinlega á kostum í síðari hálfleik eftir miður góðan fyrri hálfleik hjá Grindvíkingum.

 

Haukar leiddu 18-20 að loknum fyrsta leikhluta og staðan í leikhléi var 29-41 Haukum í vil og Grindvíkingar fjarri sínu besta. Hálfleiksræðan hjá Igor Beljanski var í styttri kantinum og ljóst að hann hafði valið orð sín vel því allt annað var að sjá til Grindvíkinga í síðari hálfleik.

 

Þær Petrúnella, Joanna og Tiffany léku við hvern sinn fingur og í þriðja leikhluta tókst Grindavík að komast yfir með frábærum endaspretti og leiddu 57-51 fyrir fjórða og síðasta leikhlutann.

 

Framan af leik tókst Haukum vel að hemja Roberson í teignum með tví- og þrídekkingu gegn henni í svæðisvörn en í síðari hálfleik hrukku skyttur Grindavíkur í gang og þar setti Petrúnella m.a. tvo mikilvæga þrista í röð fyrir Grindavík.

 

Fagnaðarlætin létu ekki á sér standa þegar flautað var til leiksloka og fögnuðu Grindavíkurkonur áfkaft með stuðningsmönnum sínum. Tiffany Roberson var stigahæst hjá Grindavík í dag með 24 stig og 13 fráköst. Joanna Skiba gerði 22 stig og Petrúnella Skúladóttir var með 15 stig, 10 fráköst og 6 stoðsendingar í liði Grindavíkur.

 

Hjá Haukum var Kiera Hardy með 19 stig og Kristrún Sigurjónsdóttir gerði 17 stig.

 

Við óskum Grindvíkingum til hamingju með sinn fyrsta bikarmeistaratitil í kvennaflokki.

 

Tölfræði leiksins

 

VF-Myndir/ Jón Björn Ólafsson og Stefán Þór Borgþórsson

 

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024