Betur fór en á horfðist
Baldur Sigurðsson fékk þungt höfuðhögg í leik Keflavíkur og ÍBV í gærkvöld þar sem Keflvíkingar kjöldrógu Eyjamenn 6-2. Þegar um 20 mínútur lifðu leiks stukku Páll Hjarðar og Baldur upp í skallaeinvígi með þeim afleiðingum að bera þurfti Baldur af velli og flytja á brott með sjúkrabifreið.
Víkurfréttir heyrðu í Baldri í morgun og var hann allur að braggast. „Ég er bólginn við hægra eyrað eftir höggið og þeir segja að ég hafi verið soldið vankaður þegar ég var borinn út af en ég fann ekki mikið fyrir því,“ sagði Baldur í samtali við Víkurfréttir.
„Ég fann fyrir smá svima þegar Falur sjúkraþjálfari fór að þreifa á bólgunni og því var ákveðið að fara með mig upp á sjúkrahús,“ sagði Baldur þar sem hann undirgekkst myndatöku.
Páll Hjarðar og Baldur stukku upp í skallaeinvígi og var Páll með hendurnar á lofti sem höfnuðu í höfði Baldurs. Ekki er gott að segja hvort um viljaverk hafi verið að ræða en saga Páls gegn Keflavíkurliðinu er ekki falleg. Skemmst er þess að minnast þegar Páll tæklaði Ingva Rafn Guðmundsson, leikmann Keflavíkur, í viðureign liðanna í Vestmannaeyjum á síðustu leiktíð. Ingvi hefur ekki spilað knattspyrnu síðan þá.
„Mér fannst þetta glæfralegt hjá honum,“ sagði Baldur um brotið í gær en Páll fékk umsvifalaust rautt spjald. Baldur hittir læknir síðar í dag til þess að fara yfir röntgenmyndirnar en hann á von á því að vera klár í slaginn á þriðjudag þegar Keflvíkingar heimsækja Víking í Reykjavík.
VF-mynd/ [email protected] - Baldur fagnar hér einu af sex mörkum Keflavíkur í gær með félögum sínum Stefáni og Guðjóni.