Bestu leikmenn Njarðvíkur heiðraðir
Bestu og efnilegustu leikmenn Njarðvíkinga í körfuknattleik voru krýndir á uppskeruhátíð félagsins í gærkvöldi. Hátíðin hófst á því að formaðurinn Hafsteinn Hilmarsson fór yfir árangur vetrarins sem var um margt ágætur, sérstaklega í yngri flokkunum.
Við þetta tækifæri voru einstakir leikmenn heiðraðir fyrir framlag sitt í vetur og voru veitt verðlaun fyrir bestu æfingasókn, mestu framfarir og besta leikmann allra flokka. Logi Gunnarsson, atvinnumaðurinn knái sem gerði garðinn frægan með Njarðvík áður en hann hélt í víking, afhenti sigurvegurum verðlaunin.
Í meistaraflokki kvenna sýndi Sigurlaug Rúna Guðmundsóttir mestar framfarir í vetur og Sæunn Sæmundsdóttir þótti besti varnarmaðurinn. Besti leikmaðurinn var Auður Jónsdóttir og kom það val fæstum á óvart. Auður, sem er fyrirliði Njarðvíkinga, átti gott tímabil og hélt liðinu oft uppi, sérstaklega á þeim tíma sem Andreu Gaines naut ekki við.
Í karlaflokknum fékk Guðmundur Jónsson viðurkenningu fyrir mestar framfarir, og fyrirliðinn Friðrik Stefánsson var valinn besti leikmaður liðsins í deildarkeppninni. Brenton Birmingham var meðal fárra leikmanna liðsins sem náðu að sýna sitt rétta andlit í úrslitakeppninni og hlut nafnbótina besti leikmaður liðsins í úrslitakeppninni.
Hápunktur hátíðarinnar var þó þegar Elfarsbikarinn var afhentur. Þessi viðurkenning er veitt á hverju ári og kemur í hlut efnilegasta leikmanns félagsins í öllum flokkum. Í ár var Ingibjörg Vilbergsdóttir hlutskörpust og er vel að þessari nafnbót komin þar sem hún hefur sannað sig sem ein allra efnilegasta körfuboltakona landsins og hefur þegar leikið fyrir A-landslið Íslands.
VF-mynd: Þorgils