Besti leikur sumarsins hjá Keflavík
Keflvíkingar unnu glæsilegan heimasigur á Fylki í kvöld, 4-2.
Keflvíkingar hafa sennilega ekki leikið betur í allt sumar og fengu 818 áhorfendur svo sannarlega eitthvað fyrir aðgangseyrinn að þessu sinni.
Liðin byrjuðu varfærnislega og voru hvött áfram af frábærum stuðningsmönnum.
Fylkismenn höfðu undirtökin í upphafi og áttu fyrsta færi leiksins á 3. mín þegar Helgi Valur Daníelsson skaut yfir af löngu færi.
Eftir það fór spilið að mestu leyti fram á miðjunni þar sem Fylkismenn virtust hafa stjórnina. Þó urðu vatnaskipti í leiknum þegar Þórarinn Kristjánsson fékk vítaspyrnu á 25. mínútu. Hann hafði fengið boltann á hægri kantinum og leikið á einn varnarmann en var svo felldur innan teigs.
Þórarinn tók vítaspyrnuna sjálfur og skoraði örugglega framhjá Bjarna Þórði Halldórssyni í marki Fylkis, 1-0.
Keflvíkingar voru hins vegar ekki lengi í Paradís því Fylkir jafnaði strax í næstu sókn. Guðni Rúnar Helgason skallaði boltann í netið á 27. mínútu eftir hornspyrnu Kjartans Breiðdal, 1-1.
Liðin óðu ekki beint í færum fram að hálfleik en Helgi Valur átti þó eitt laust skot sem Magnús Þormar í marki Keflavíkur átti ekki í erfiðleikum með. Magnús, sem er nú aðalmarkmaður liðsins þar sem Ólafur Gottskálksson mun ekki leika með þeim framar, stóð sig með mikilli prýði í kvöld og þurfa Keflvíkingar ekki að örvænta ef hann heldur svona áfram.
Rétt áður en dómarinn blés til leikhlés komust heimamenn yfir með marki Haralds Guðmundssonar. Varnarjaxlinn kom æðandi fram völlinn og fékk góða sendingu frá Scott Ramsey á vinstri kantinum og kom Bjarni Þórður engum vörnum við. Staðan var 2-1 og Keflvíkingar fóru inn í klefa með þægilega stöðu.
Heimamenn áttu leikinn með húð og hári í seinni hálfleik. Þeir byrjuðu sterkir og sóttu og pressuðu allt frá byrjun og varnarveggurinn var þéttur. Jónas Guðni Sævarsson var sívinnandi á miðjunni eins og alltaf og bakverðirnir Guðjón Antoníusson og Ólafur Ívar Jónsson stigu vart feilspor í leiknum.
Keflvíkingar voru óheppnir að auka ekki forskotið á 56. mín þegar Þórarinn, Ramsey og Zoran Ljubicic voru á móti tveimur varnarmönnum en ágætt skot Þórarins fór framhjá stönginni.
Svo brast stíflan loks á 62. mín þegar Þórarinn færði sér hrikaleg varnarmistök Vals Fannars Gíslasonar í nyt og skoraði þriðja mark Keflavíkur og sitt annað mark með góðu skoti einn á móti markmanninum.
Eftir markið var sem lifnaði eilítið yfir gestunum og Helgi Valur átti enn skot sem Magnús varði vel á 71. mín. Þá skaut Finnur Kolbeinsson í varnarmann og út af innan úr teignum skömmu síðar.
Rothöggið kom svo á 75. mínútu þegar Hörður Sveinsson, sem var nýkominn inná sem varamaður, skoraði úr sinni fyrstu snertingu eftir frábærlega útfærða sókn. Stefán Gíslason vann boltann af Kjartani Breiðdal á miðjunni og sendi góða sendingu út á hægri kantinn þar sem Þórarinn lék á varnarmann og gaf fyrir þar sem Hörður kom aðvífandi á nærstönginni og smellti boltanum í netið, 4-1.
Fylkismenn lögðu ekki árar í bát þótt flest stefndi í tap og náðu að klóra í bakkann á 78. mín. Guðni Rúnar gaf þá boltann fyrir markið frá hægri kantinum og varamaðurinn Eyjólfur Héðinsson skallaði í netið. Staðan var 4-2 og enn 12 mínútur eftir, en Fylkismenn komust ekki lengra.
Keflvíkingar áttu mun betri færi það sem eftir lifði leiks og var Mehmetali Dursun óheppinn að hitta ekki á rammann af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá Hólmari Erni Rúnarssyni, sem gerði varnarmönnum lífið leitt allan leikinn.
Í leikslok fögnuðu leikmenn og stuðningsmenn Keflavíkur innilega og skal engan undra eftir frábæran leik.
Þórarinn var að vonum sáttur í leikslok enda skoraði hann tvö í kvöld og lagði eitt upp. Hann sagðist ekki frá því að þetta væri þeirra besti leikur í sumar. „Við vorum allir á tánum og vel tilbúnir í leikinn. Við unnum þá í Árbænum um daginn og vissum að við gátum þetta. Við vorum vel upptjúnaðir og gerðum eins og við gátum. Við erum á góðu skriði núna. Það eru fimm leikir eftir í deildinni og tveir í bikarnum og við tökum þá bara líka?“
Milan Stefán Jankovic, þjálfari Keflvíkinga, var einnig í skýjunum eftir leikinn.
„Það var allt að smella hjá okkur í kvöld, baráttan og spilið. Við vorum að gefa fyrir og koma okkur í góð færi. Við spiluðum vel á móti góðu liði og leikurinn var mjög skemmtilegur.“
Keflavík er enn í sjötta sæti deildarinnar en er nú einungis sex stigum á eftir toppliði FH.
VF-myndir/Héðinn Eiríksson