Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Besti leikur Keflavíkur undir minni stjórn - sagði Guðjón Skúlason, þjálfari
Mánudagur 18. janúar 2010 kl. 23:25

Besti leikur Keflavíkur undir minni stjórn - sagði Guðjón Skúlason, þjálfari

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

„Þetta er besti leikur Keflavíkur undir minni stjórn og við hreinlega völtuðum yfir félaga okkar úr Njarðvík,“ sagði Guðjón Skúlason, þjálfari Keflavíkur kampakátur eftir stórsigur á Njarðvíkingum í Subway bikarkeppninni í Toyota höllinni í Keflavík.


„Eins og ég var búinn að segja þá var þetta spennustigið sem réð úrslitum. Við vorum vel stemmdir í byrjun en þeir ekki og það réði auðvitað úrslitum. Hugarfarið skiptir gríðarlega miklu máli í svona stórleikjum. Þegar munurinn er orðinn tuttugu stig þá er erfitt að koma til baka – alla vega hér í Keflavík“.

Þið voruð mjög grimmir í vörni og sókn og gáfuð þeim aldrei grið?
„Já, Hörður, Gunni og Burn drógu vagninn en aðrir voru líka mjög duglegir. Þetta var flott liðsheild. Njarðvíkingarnir eru með mjög sterkt lið en í kvöld vorum við einfaldlega miklu betri á öllum sviðum. þeir áttu hreinlega ekkert svar við okkar leik. Þetta var í raun svipað og í fyrri leiknum í deildinni í Njarðvík en þetta var náttúrulega mikilvægari leikur. Við höfum verið með erfið lið í Bikarnum, fyrst Stjarnan og núna Njarðvík. Ætli við fáum ekki Grindavík næst,“ sagði Guðjón glaður í bragði.


Magnús Gunnarsson, stórskytta var ekki með byssurnar rétt stilltar í kvöld frekar en aðrir Njarðvíkingar. „Við vorum bara ekki tilbúnir. Við vorum bara eins og áhorfendur“.
Þeir voru miklu grimmari en þið í öllu?
„Já, það er ekki flóknara en það. Ég hreinlega veit ekki hvað var að okkur. Þetta var ömurlegt,“ sagði Magnús.

„Þetta var yndislegt. Það er svo skemmtilegt að vinna Njarðvík. Við vorm búnir að undirbúa okkur vel fyrir leikinn og mættum rétt stemmdir. Við vorum ákveðnir í að vera á fullu, sérstaklega í vörninni en okkur gekk líka vel í sókninni og uppskárum frábæran sigur,“ sagði Hörður Axel Vilhjálmsson.
Ertu ekkert þreyttur eftir öll þessi hlaup og baráttu?
„Jú, ég verð að viðurkennna það. Þetta er góð þreyta. Við unnum þennan mikilvæga leik og við erum á góðu skriði,“ sagði Hörður sem mörgum fannst besti maður vallarins í kvöld.


Burns sækir að körfu Njarðvíkur á mili Jóhanns og Friðriks. Að ofan treður Hörður Axel með tilþrifum. Efst má sjá Guðjón Skúla þakka Nick Bradford fyrir leikinn. VF-myndir/Páll Orri og Páll Ketils.