Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Batamerki á Keflvíkingum
Rúnar Þór Sigurgeirsson lætur vaða í leiknum gegn Val. Hann og Ísak Óli Ólafsson eru báðir á leið í landsliðsverkefni með A-landsliði Íslands. VF-mynd: Hilmar Bragi
Jóhann Páll Kristbjörnsson
Jóhann Páll Kristbjörnsson skrifar
mánudaginn 24. maí 2021 kl. 23:02

Batamerki á Keflvíkingum

Keflavík tók á móti Val í sjöttu umferð Pepsi Max-deildar karla í knattspyrnu. Gengi þessara tveggja liða hafa verið ólík í sumar en fyrir leikinn hafði Valur unnið fjóra leiki og gert eitt jafntefli á meðan Keflavík hafði aðeins sigrað einn leik en tapað fjórum.
Varnarleikur Keflavíkur hefur verið í molum í síðustu leikjum og liðið fengið á sig tólf mörk í síðustu þremur leikjum á undan viðureigninni í kvöld. Mikil batamerki mátti greina í leik Keflvíkinga en þó fóru leikar þannig að Valur sigraði með tveimur mörkum gegn einu.

Eysteinn Hauksson og Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfarar Keflvíkinga, gerðu þrjár breytingar á byrjunarliðinu í kvöld og þær gerðu sitt gagn. Nokkurt jafnræði var á með liðunum framan af fyrri hálfleik en eftir því á leið þyngdist sókn Valsara og þeir uppskáru mark eftir hornspyrnu á 40. mínútu.

Staðan 0:1 í hálfleik og snemma í þeim síðari fengu Keflvíkingar annað mark á sig (52’) ... og aftur eftir hornspyrnu sem heimamenn ná ekki að hreinsa í burtu. Vandræðagangur í vörninni sem hefur verið svolítið einkennandi hjá Keflavík í sumar.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024

Keflvíkingar léku ágætlega, sérstaklega í seinni hálfleik, en Íslandsmeistarar Vals gerðu nóg til að landa sigrinum þótt Joey Gibbs hafi náð að minnka muninn fyrir Keflavík í uppbótartíma (90’+3). Fjórða tapið í röð hjá Keflavík staðreynd en þeir sýndu þó að það er meira í liðið spunnið en sést hefur í síðustu leikjum.

Hilmar Bragi Bárðarson, ljósmyndari Víkurfrétta, var á HS Orkuvellinum í kvöld og tók meðfylgjandi myndir sem sjá má í myndasafni neðar á síðunni.

Keflavík - Valur // PepsiMax-deild karla // 24. maí 2021