Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Barist til síðasta manns
Sunnudagur 30. júlí 2006 kl. 16:37

Barist til síðasta manns

Guðmundur og Óli Stefán um nágrannaslaginn

Lokaleikur 12. umferðar í Landsbankadeild karla í knattspyrnu verður nágrannaslagur Keflavíkur og Grindavíkur sem fram fer á morgun, mánudag. Liðin skildu jöfn 1-1 þegar þau mættust í fyrri leiknum í Grindavík í sumar þar sem Jóhann Þórhallsson gerði mark Grindavíkur og Guðmundur Steinarsson skoraði fyrir Keflavík.

Fyrri leikurinn í Grindavík olli nokkrum vonbrigðum þar sem veðrið setti strik í reikninginn og lítið var því um spil og skemmtileg tilþrif. Keflvíkingar eru í 4. sæti deildarinnar með 15 stig en Grindavík er í 6. sæti með 14 stig. Guðmundur Steinarsson, fyrirliði Keflavíkur, og Óli Stefán Flóventsson, leikmaður Grindavíkur, eiga von á skemmtilegum leik á morgun og ætla sér báðir sigur.

„Við tökum þrjú stig á mánudag, við erum með betra sóknarlið og það er betra fyrir okkur þegar þeir þurfa að fara að sækja,“ sagði Guðmundur Steinarsson. „Við munum leika þéttan varnarleik og halda aftur af þeim, eitt mark dugir til að vinna ef vörnin er sterk,“ sagði Óli Stefán Flóventsson. Fróðlegt verður að sjá hvernig leikurinn mun þróast þar sem Keflvíkingar hafa verið að raða inn mörkunum í síðustu leikjum á meðan vörn Grindavíkur hefur verið þeirra helsti styrkleiki.

 

„Það er ákveðinn rígur milli liðanna og kannski meira sett í þennan leik en aðra, sérstaklega núna þegar svona mjótt er á munum í deildinni,“ sagði Guðmundur. „Þetta eru alltaf hörkuleikir og kannski smá bikarstemmning í leikjunum. Við munum ekki hika við að sækja á Keflvíkinga,“ sagði Óli Stefán.

 

Óvíst er hvort Óli Stefán verði orðinn heill heilsu fyrir leikinn en hann og Paul McShane hafa verið að æfa með Grindavíkurliðinu að undanförnu eftir að hafa átt við meiðsl að stríða. Ekki er enn ljóst hvort Guðmundur Mete verði með Keflvíkingum en meðhöndlun á meiðslum hans ganga framar vonum. Guðmundur meiddist gegn ÍA í 8 liða úrslitum VISA bikarkeppninnar þegar Bjarni Guðjónsson fór í glórulausa tæklingu sem skildi Guðmund eftir sárþjáðann í grasinu.

 

Leikurinn hefst kl. 20:00 á morgun á Keflavíkurvelli.

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024