Baráttan um þann stóra hefst á morgun
Úrslitakeppni Iceland Express deildar karla í körfuknattleik hefst annað kvöld. Eftir gríðarspennandi deildarkeppni er ómögulegt að sjá fyrir hvað verður í úrslitakeppninni og rekur hvert stóreinvígið annað í fyrstu umferð. Keflavík og Grindavík ríða á vaðið annað kvöld en á laugardag taka Njarðvíkingar á móti bikarmeisturum Snæfells. Víkurfréttir tóku púlsinn af þjálfurum Suðurnesjaliðanna en kapparnir segjast klárir í slaginn langa sem er framundan.
Keflavík varð deildarmeistari í ár og mætir Þór Akureyri í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Sigurður Ingimundarson þjálfari Keflvíkinga segir Þór betra lið en bæði Stjörnuna og Tindastól og eðlilegra að Keflavík myndi mæta Akureyringum í fyrstu umferð. ,,Fyrsta umferðin er alltaf erfið. Þórsarar hafa engu að tapa en við erum fullfærir um að ráða við þá pressu sem fylgir því að vera talið sigurstranglegra liðið. Við erum tilbúnir og lítum bara vel út þessa dagana og ég er spenntur fyrir úrslitakeppninni,” sagði Sigurður en hvernig líst honum á Þórsliðið?
,,Þór hefur frábæran leikmann í Cedric Isom sem og Luka Marolt og liðið er samhelt og hefur unnið alvöru lið á sínum heimavelli. Þeir unnu t.d. Snæfell í síðustu umferðinni og þá var langt síðan Snæfellingar töpuðu og það segir manni margt um þetta Þórslið,” sagði Sigurður. Óneitanlega eru deildarmeistarar Keflavíkur sigurstranglegra liðið gegn Þór sem eru sýnd veiði en ekki gefin.
Síðustu tvö ár hafa Grindavík og Skallagrímur mæst í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Í fyrra skiptið vann Skallagrimur og komst áfram en í fyrra vann Grindavík og komst áfram en bæði lið mættu þó Njarðvík eftir fyrstu umferð og duttu út fyrir vikið. Friðrik Ragnarsson þjálfari Grindvíkinga segir að sama hvað lið Grindavík hefði fengið þá hefði fyrsta umferðin ávallt verið gríðarlega erfið.
,,Þetta verður meira að segja erfitt fyrir Keflavík gegn Þór. Annars geri ég ráð fyrir því að Zeko verði kominn á fullt með Skallagrím og þeir fullskipaðir gegn okkur nema Hafþór Ingi er frá út tímabilið,” sagði Friðrik en bætti við að frátöldum Birni Steinari væru Grindvíkingar fullmannaðir. Björn Steinar meiddist á miðri leiktíð og verður ekki meira með í vetur. ,,Við hittum núna á Skallagrím þegar þeir eru að fá flest púslin sín til baka svo þetta verða svakalegir leikir eins og síðustu tvö ár,” sagði Friðrik sem segir aðlögun Jamaal Williams hafa gengið vel síðan gulir létu Jonathan Griffina fara frá félaginu. ,,Hann hefur fengið góðan tíma til að aðlagast og við erum búnir að æfa mjög vel og ég fæ ekki séð annað en að við mætum eins tilbúnir og við getum orðið. Nú er verkefnið Skallagrímur og við gefum allt í þetta til að komast í næstu umferð.”
Njarðvíkingar hafa verið að finna fjölina í undanförnum leikjum og sýndu sínar bestu hliðar gegn Grindavík í lokaumferð deildarkeppninnar og segir Teitur Örlygsson þjálfari Njarðvíkinga að grænir eigi harma að hefna gegn bikarmeisturum Snæfells.
,,Það hefur verið góður gangur á Snæfellingum þó þeir hafi tapað gegn Þór í síðustu umferðinni. Okkar kynni af Snæfell í vetur eru ekkert sérstaklega skemmtileg og við eigum harma að hefna gegn þeim,” sagði Teitur en Snæfell sló Njarðvík út úr undanúrslitum bikarkeppninnar í Ljónagryfjunni í Njarðvík. ,,Það er ekki verra að hafa heimavöllinn okkar megin og ef fólk mætir vel og styður við bakið á okkur þá mun heimavöllurinn skipta miklu máli,” sagði Teitur en með sigri á Grindavík í lokaumferðinni tókst Njarðvíkingum að tryggja sér heimavallarréttindin gegn Snæfellingum.
,,Tímabilið er búið að vera smávægileg rússíbanareið en við munum reyna að hafa þetta eftirminnilegt og maður finnur það á strákunum að sjálfstraustið hefur farið vaxandi,” sagði Teitur.
Fyrstu leikir Suðurnesjaliðanna
28. mars
Kl. 19:15 Keflavík-Þór Akureyri
Kl. 19:15 Grindavík-Skallagrímur
29. mars
Kl. 16:00 Njarðvík-Snæfell
30. mars
19:15 Þór Akureyri-Keflavík
19:15 Skallagrímur-Grindavík
31. mars
19:15 Snæfell-Njarðvík