Aðventugarðurinn
Aðventugarðurinn

Íþróttir

Baráttan reið baggamuninn
Fimmtudagur 27. janúar 2005 kl. 19:50

Baráttan reið baggamuninn

Njarðvíkingar unnu loks sigur í Ljónagryfjuni þegar þeir fengu nágranna sína frá Grindavík í heimsókn í gær,. Lokatölur voru 91-81 eftir spennandi og skemmtilegan leik.

Liðin voru afar jöfn framan af leik og munaði sjaldnast meira en tveimur stigum á liðunum, hvorn veginn sem var. Grindvíkingar leiddu eftir fyrsta fjórðung, 21-23 en athygli vakti að á meðan þeir léku á nær sömu fimm mönnunum voru Njarðvíkingar þegar farnir að skipta mönnum inná. Þetta átti eftir að vega þungt í leiknum þar sem úthaldið átti eftir að skipta miklu máli.

Staðan hélst jöfn fram í seinni helming annars leikhluta þar sem nafnarnir Páll Kristinsson og Páll Axel Vilbergsson fóru á kostum. Njarðvíkingurinn í gegnumbrotum og hraðaupphlaupum og Páll Axel var sjóðandi heitur fyrir utamn 3ja stiga línuna.

Þegar um fimm mínútu voru til hálfleiks fór sóknarleikur gestanna að bregðast auk þess sem Njarðvíkingar voru duglegir við að refsa með hraðaupphlaupum og Anthony Lackey fór að láta á sér kræla. Hann átti þó eftir að kom enn frekar við sögu í seinni hálfleik.

Njarðvíkingar voru einráðir á vellinum og breyttu stöðunni úr 42-40 í 53-42 á skömmum tíma en staðan var svo 56-49 í hálfleik.

Einar Einarsson hefur eflaust messað yfir sínum mönnum í hálfleik því Grindvíkingar mættu til seinni hálfleiks einbeittir í vörn og Darrel Lewis skoraði fyrstu 6 stig leikhlutans. Þá hélt Páll axel uppteknum hætti og Njarðvíkingingar voru í tómum vandræðum. Þeir skoruðu ekki stig fyrr en eftir rúmar 3 mínútur og Grindvíkingar gegnyu á lagið og minnkuðu muninn fljótlega niður í 2 stig og jöfnuðu rétt fyrir lok leikhlutans, 69-69. Lackey átti þó lokaorðið og setti 3ja stiga körfu áður en yfir lauk, staðan 72-69.

Í upphafði lokaleikhlutans gáfu Njarðvíkingar tóninn með frábærri vörn og miklum baráttuanda þar sem hinn ungi og efnilegi Jóhann Árni Ólafsson fór fremstur. Hann tók Lewis hreinlega úr umferð og kveikti í liðinu með stökkum á eftir lausum boltum og stúkan tók vel undir.

Grindvíkingum virtist fyrirmunað að vinna leikinn þar sem heimamenn skelltu í lás í vörninni og skotnýting þeirra var agaleg. Einungis 3 skot af 24 hittu í körfuna og loksins heimasigur í Ljónagryfjunni eftir slaka hrinu.

„Við vorum að gera mjög margt gott í þessum leik,“ sagði Einar, þjálfari Grindavíkur, í samtali við Víkurfréttir í leikslok. „Okkur gekk vel í sókninni þegar Palli var að fá boltann og skjóta vel en svo er eins og það komi eitthvað einbeitningarleysi í mannskapinn. Við áttum möguleika á að fá eitthvað út úr þessum leik en okkur virtist vanta herslumuninn.“

„Ég sá nokkur andlit hér í kvöld sem ég hef ekki séð lengi.“ sagði Einar Árni Jóhannsson hjá Njarðvík og vísaði þar til baráttunnar sem réði baggamuninn í leiknum. „Það voru allir að leggja í púkkið í kvöld. Enginn var að spara neitt í leiknum og það voru allir á tánum. Við vissum það að við erum að fara í bikarúrslitaleik eftir innan við tvær vikur og við verðum að vera rétt stemmdir þeagr að því kemur. Við lögðum mikla áherslu á varnaleik og vorum svo með tvo í öllum stöðum og vorum því ferskari allan leikinn.“

VF-myndir/Þorgils Jónsson

Jólalukka VF 2024
Jólalukka VF 2024