Baráttan hefst í kvöld
Úrslitakeppnin í Iceland Express deild karla hefst í kvöld með tveimur leikjum sem venju samkvæmt hefjast kl. 19:15. Deildarmeistarar KR taka á móti ÍR í DHL-Höllinni og Keflavík fær Tindastól í heimsókn í Toyota-höllina. Annað kvöld hefjast svo einvígi Grindavíkur og Snæfells annarsvegar og hinsvegar einvígi Stjörnunnar og Njarðvíkinga.
Í 8-liða úrslitum úrvalsdeildar þarf að vinna tvo leiki til þess að komast áfram í undanúrslit og því geta leikirnir flestir orðið þrír í hverju einvígi í þessari fyrstu umferð.
KR lauk keppni í 1. sæti deildarinnar og fögnuðu deildarmeistaratitlinum í Stykkishólmi á meðan ÍR-ingar lögðu Grindavík í lokaumferðinni og tryggðu sér þar með áttunda og síðasta sætið í úrslitum. Stólarnir voru á mikilli siglingu undir lok deildarinnar og kræktu sér í 7. sætið en Keflvíkingar luku keppni í 2. sæti.
Af www.karfan.is